fbpx
Þriðjudagur 08.júlí 2025
Fréttir

Björn Geir læknir er búinn að fá nóg – Tætir í sig auglýsingu Fréttablaðsins þar sem Jón Arnór dásamar undraplástur

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 3. júlí 2018 13:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Björn Geir Leifsson, skurðlæknir með meistarapróf í stjórnun og lýðheilsu, spyr hvort ekki sé kominn tími til að gera það refsivert að nýta sér trúgirni fólks til að hafa af því fé með ýkjum og ósannindum.

Tilefnið er kynningargrein sem birtist í Fréttablaðinu í dag en í henni dásamar körfuknattleiksmaðurinn Jón Arnór Stefánsson FIT-verkjaplásturinn svokallaða. Í auglýsingunni um plástrana segir:

„FIT-plástrarnir eru ítölsk uppfinning sem byggja á innrauðu geislum líkamans sem eru nýttir aftur inn í líkamann og örva þannig háræðakerfið svo að blóðið kemst betur til aumu staðanna og úrgangsefni hreinsast hraðar í burtu. Virkar því nokkuð svipað og nudd. Hjálpar líkamanum að hjálpa sér sjálfum.“

Jón Arnór segist hafa notað plástrana með góðum árangri.

„Ég hef góða reynslu af verkjaplástrinum sem íþróttamaður en ég er viss um að hann dugar vel fyrir alla. Áður hafði ég tekið inn mikið af verkjalyfjum en er hættur því. Hef ekki þurft að taka þau inn eftir að ég byrjaði að nota plásturinn og mér líður miklu betur í hnjánum. Það er allt annað að vakna á morgnana núna því ég er ekki eins stífur og verkjaður. Stundum var erfitt að komast fram úr rúminu eftir að hafa verið í stöðugum æfingum og keppni. Ég get alveg mælt hundrað prósent með verkjaplástrinum. Mín reynsla er allavega mjög góð,“ segir hann.

Björn Geir hefur áður tætt í sig auglýsingar sem þessar og er skemmst að minnast gagnrýni hans á Celcius-fitubrennslubeltið árið 2016. Hann segir að umræddur FIT-plástur, eða öllu heldur orðasúpan um gagnlega eiginleika hans, brjóti gegn lögmálum náttúrunnar.

Björn segir á Facebook-síðu sinni:

„Vaktmeistarinn þurrkaði stýrurnar þrisvar og gáði tvisvar hvort það væri nokkuð fyrsti apríl. Falskynningar flettiblaðsins náðu í dag nýjum hæðum með tveggja síðna auglýsingu um kraftaverkaplásturinn Fit frá Ítalíu.
Auglýsing, dulbúin sem langt viðtal við glaða íþróttahetju og svo ævintýraleg orðasúpa í lokin um bókstaflega ótrúlega eiginleika skrautlegs plásturs sem ætlað er að brjóta náttúrulögmálin.“

Björn heldur svo áfram:

„Fyrirtækið ÍSAM kallar þetta “Nýsköpun í verkjastillingu” og fer mikinn um hvað þessi undraplástur á að koma í stað vondu verkjalyfjanna með því að spegla innrauðu geislana aftur inn í líkamann og auka þar með virkni háræðakerfisins svo að blóðið hreinsast betur af fitu og úrgangsefnum eins og segir í þessari makalausu auglýsingu.
Og svo kemur bomban í lokin: “Frá sama fyrirtæki eru einnig í boði tíðaplástrar sem nýta sömu tækni og draga úr tíðaverkjum kvenna.”

Björn spyr svo í lok greinarinnar hvort ekki sé kominn tími til að gera auglýsingar sem þessar refsiverðar.

„Það væri sennilega refsivert að nýta sér vanmátt þroskafatlaðs einstaklings til að selja honum falsvöru með ósannindum og ýkjum. Er ekki kominn tími til að gera það refsivert að nýta sér trúgirni fólks til að hafa af því fé með ýkjum og ósannindum um alls konar ónýtt púlver og plástra?“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt