„Misnotkun lyfseðilsskyldra lyfja virðist vera komin í tísku hjá breiðum hópi allt niður í grunnskólabörn og hræðumst við þessa stöðu mjög.“ Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem samtökin Olnbogabörn sendi frá sér fyrr í dag. Á þessu ári hafa að minnst 19 ungir einstaklingar látist af völdum neyslu á ýmist fíkniefnum eða lyfseðilsskyldum lyfjum eða afleiðingum þessa. Samtökin lýsa yfir neyðarástandi.
Þann 6. júní síðastliðinn sendi félagið Olnbogabörnin frá sér opið bréf til stjórnenda Barnaverndarstofu. Megin inntak bréfsins var að sækjast eftir svörum við því hvað ætti að gera fyrir þau börn sem engin úrræði eru til fyrir, börn sem eru í geymslu í úrræðum ríkisins og eru ekki að fá þá þjónustu sem þau sárlega þurfa.
„Svörin sem fengust sem voru eingöngu í gegnum fjölmiðla voru þau að fjármagn (þetta á aldrei að snúast um peninga) hefði fengist og að úrræði yrði opnað í september,“
kemur fram í tilkynningu samtakana um leið og samtökin krefjast viðbragða frá yfirvöldum, með með viðeigandi aðgerðum.
„Á þessu ári hafa að minnsta kosti 19 ungir einstaklingar látist af völdum neyslu á ýmist fíkniefnum eða lyfseðilsskyldum lyfjum eða afleiðingum þessa! Og fjöldamörgum hefur verið bjargað við dauðans dyr! Geðheilbrigðisþjónustu er vart að fá og úrræðum er lokað vegna sumarleyfa?? Hvernig getur þetta verið í lagi?“
Samtökin vekja athygli á því að fíknigeðdeild er lokuð í sjö vikur í sumar.
„Þar eru rúm fyrir 16 sjúklinga, hvert fara þessir einstaklingar? Líkurnar á því að þessum einstaklingum verði neitað um þjónustu (vegna plássleysis eða manneklu) eru yfirgnæfandi og það er LÍFSHÆTTULEGT!!! Við krefjumst úrbóta.“
Fram kemur að neysla íslenskra ungmenna fari síst minnkandi.
„Neyslan fer vaxandi (og er að breytast mjög mikið ) og vandamálin stækka, lyfseðilsskyldu lyfin eru hættulegri og krakkarnir eru yngri komin í verri mál. Forvarnir eru nánast engar og ef einhverjar þá eru það einkaaðilar sem standa þar að. Er það í lagi?“
„Góð byrjun væri að bregðast við kaupum og sölum á þessum efnum á samfélagsmiðlum. Herða lagarammann og eftirlit með læknum sem gefa út þessi lyf (það er vel gerlegt). Auka fræðslu um afleiðingar þessa og tryggja að geðheilbrigðisþjónusta sé í boði fyrir alla sem hennar óska! Það á enginn að upplifa það að vera vísað frá eftir að hafa magnað upp kjarkinn til að leita sér aðstoðar. ALDREI.
Ætti ekki að vera sjálfsagt að fólk fái umbeðna læknisaðstoð þegar sóst er eftir henni í besta landi í heimi? En er það þannig? NEI. Við erum að heyra ítrekaðar sögur af því að fólk á öllum aldri, jafnvel börn og ungmenni fái hreinlega neitun um heilbrigðisþjónustu þegar þau sækjast eftir henni. Við taki endalaus bið og einhver þessara ungmenna hafa hreinlega dáið á meðan þau bíða! Er það í lagi? Geðheilbrigðisþjónusta fellur nefnilega líka undir heilbrigðiskerfið okkar. Hættum að takast á við afleiðingarnar og förum að vinna að rót vandans!
Þetta snýst um mannréttindi.
Olnbogabörnin.“