„Kristján var yndislegur strákur. Ég er mjög þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast honum,“ segir Endija Róbertdóttir vinkona Kristjáns Steinþórssonar en Kristján lést þann 9.júní síðastliðinn, aðeins 26 ára að aldri. Kristján hafði glímt við þunglyndi og önnur andleg vandamál um langt skeið og hafði sokkið í mikla fíkniefnaneyslu.
Saga Kristjáns var sögð í helgarblaði DV á dögunum en Kristján fannst látinn í herberginu sínu sem hann hafði á leigu í Hafnarfirði. Á sínum yngri árum var Kristján afburðanemandi, sá besti í skólanum, og hafði allt til brunns að bera til að eiga gæfuríkt og gott líf en kerfið brást honum á öllum stigum. Þegar hann grátbað um aðstoð á sinni myrkustu stund mættu honum sinnuleysi og hroðvirknisleg vinnubrögð. Afleiðingin er sár, bæði fyrir fjölskyldu hans og vini og samfélagið allt.
Kristján hafði glímt við þunglyndi, kvíða og félagsfælni um langt skeið og sautján ára fór hann að leita í fíkniefni til að deyfa sársaukann. Í kringum jólin árið 2017 var hann farinn að leita í harðari efni og sökk hratt niður í dýpi þunglyndis og fíkniefnaneyslu. Dagbjört Þráinsdóttir, móðir Kristjáns, og systir hennar Andrea sögðu blaðamönnum DV frá ævi Kristjáns og hvernig kerfið brást honum. „Það virðast ekki vera til úrræði fyrir þetta fólk. Það þarf að vera hægt að grípa fólk sem lendir í andlegri krísu áður en það fer að reyna að lækna sig sjálft með því að reykja gras og prófa hin og þessi efni til þess að deyfa sársaukann,“ sagði Dagbjört meðal annars.
Jafnframt kom fram að Kristján hafði allt til brunns að bera til að eiga gott og gæfuríkt líf. Hann átti fjölskyldu sem studdi hann, hann var afburðanemandi í skóla og vinsæll meðal allra sem kynntust honum.
„Öllum sem kynntust honum líkaði vel við hann strax við fyrstu kynni. Ég þekki ekki neinn sem var illa við hann. Krakkarnir vildu vera vinir hans og voru alltaf að reyna að hafa samband og reyna að fá hann með en hann vildi alltaf vera heima. Það eru mörg ár síðan hann lokaði sig frá umheiminum, hann hitti aldrei neina fyrir utan fjölskylduna og var meira að segja hættur að mæta í fjölskylduboð.“
„Hann átti alls ekki skilið að fara svona snemma. Hann var indæll og vildi öllum vel og fékk alla til að hlæja,“ segir Endija Róbertsdóttir vinkona Kristjáns í samtali við DV en hún er ein aðstandenda söfnunar sem hrundið hefur verið af stað til að styðja við bakið á fjölskyldu Kristjáns á þessum erfiðu tímum. Augljóst er að margir eiga nú um sárt að binda.
„Dagbjört móðir hans er öryrki eftir krabbamein sem hún fékk fyrir tíu árum. Hún missti íbúðina sína fyrir nokkrum árum og býr núna hjá öldruðum föður sínum. Kristján missti pabba sinn fyrir þremur árum og átti því enga að en móður sína og systkini.
Það er því nokkuð ljóst að það er margt sem liggur á Dagbjörtu og höfum við því ákveðið að koma af stað söfnun fyrir hana og fjölskylduna til að standa kostnað af útför og öðru sem fylgir þessum erfiða tíma,“ segir Endija jafnframt um leið og hún biðlar til fólks um að leggja fjölskyldunni lið í sorginni, svo þau þurfi ekki að hafa áhyggjur af fjármálum ofan á allt annað. Margt smátt gerir eitt stórt.
Þeir sem vilja leggja söfnunni lið er bent á eftirfarandi reikningsupplýsingar:
Reikningsnúmer: 0171-05-003163
Kennitala: 260278-5849