Andri Gunnarsson, lögmaður og eigandi lögmannsstofunnar Nordik, er með réttarstöðu sakbornings í rannsókn skattrannsóknarstjóra og héraðssaksóknara á meintum skattalagabrotum útflutningsfyrirtækisins Sæmark ehf. Greint var þessu í fréttum Stöðvar 2 í vikunni. Andri er sonur Gunnars Einarssonar, bæjarstjóra í Garðabæ.
Brotin eru sögð vera þau umfangsmestu sem upp hafa komið hér á landi en þau snúa að meintum skattaundanskotum Sigurðar Gísla Björnssonar, stofnanda og eiganda Sæmarks ehf. Tengist Andri málinu sem lögmaður og viðskiptafélagi Sigurðar Gísla en fram kemur að húsleit hafi verið gerð á á lögmannsstofu Andra í byrjun maímánaðar. Landsréttur hafnaði í síðustu viku kröfu Andra um afhendingu þeirra gagna sem haldlögð voru við leitina.
Andri hefur verið umsvifamikill í íslensku viðskiptalífi undanfarin ár. Hann og Sigurður Gísli eru viðskiptafélagar í gegnum eignarhaldsfélagið Óskabeini sem er eigandi að hlut í VÍS og Kortaþjónustunni. Þá var Andri í hópi fjárfesta sem keyptu fimm hótel, þar á meðal KEA-hótel og Hótel Borg árið 2012. Hótelin voru seld árið 2017 með góðum hagnaði.
Ekki liggur fyrir hver aðild Andra er að meintum skattalagabrotum.