Argentínska landsliðið æfði í morgun á æfingasvæðinu í Bronnitsy, skammt fyrir utan Moskvu, fyrir leikinn gegn Íslandi á laugardag. Látið hefur verið að því liggja að Jorge Sampaoli, þjálfari Argentínu, sé kominn með byrjunarliðið í kollinn miðað við hvernig stillt var upp á æfingunni.
Þannig var þeim Lionel Messi, Sergio Aguero og Angel Di Maria stillt upp sem þremur fremstu mönnunum á æfingunni. Aguero var einn í fremstu víglínu en Messi og Di Maria þar fyrir aftan, að því er The Sun greinir frá. Gonzalo Higuain byrjaði í fremstu víglínu í 4-0 sigrinum á Haiti á dögunum en komst ekki á blað. Aguero kom inn á sem varamaður fyrir Higuain í leiknum og skoraði 10 mínútum síðar. Virðist hann ætla að fá traustið hjá Sampoli gegn Íslandi.
Í uppstillingu Sampaoli á æfingunni var Maximiliano Meza á miðjunni og þeir Javier Mascherano og Lucas Biglia fyrir aftan. Meza þessi er 26 ára og spilar með Indipendiente í heimalandinu. Hann er óreyndur og á aðeins tvo leiki að baki fyrir argentínska liðið. Talið er að honum hafi verið stillt upp í fjarveru Manuel Lanzini, leikmanns West Ham, sem meiddist fyrir skemmstu og missir af HM.
Lucas Biglia, sem hefur glímt við meiðsli að undanförnu, skipti síðar á æfingunni við Giovani Lo Celso, leikmann PSG í Frakklandi, sem þykir gefa til kynna að Lo Celso verði í byrjunarliðinu fari svo að Biglia verði ekki klár.
Manchester-mennirnir Nicolas Otamendi, leikmaður City, og Marcos Rojo, leikmaður United, voru miðvarðarpar og þeir Eduardo Silva, leikmaður Benfica, og Nicolas Tagliafico, leikmaður Ajax, voru í bakvarðarstöðunum. Silva hægra meginn og Tagliafico vinstra meginn. Willy Caballero, varamarkvörður Chelsea, var svo í markinu í fjarveru Sergio Romero sem er meiddur og missir af HM.
Hvort þetta verði byrjunarlið Argentínumanna gegn Íslandi skal ósagt látið, en athyglisverð uppstilling engu að síður hjá Jorge Sampaoli.