„Þetta er skemmtilegur staður hérna við Svartahafið, mjög fallegur staður. Eitthvað sem maður hefur ekki séð áður í Rússlandi, allavega ekki ég,“ sagði landsliðsmaðurinn Sverrir Ingi Ingason og leikmaður Rostov í Rússlandi.
Sverri Inga virðist líða vel í Rússlandi en hann gekk í raðir Rostov frá Granada á síðasta ári. Ekki er ýkja langt á milli heimaborgar Sverris, Rostov-on-Don, og Gelendzhik – að minnsta kosti ekki á rússneskan mælikvarða – en þrátt fyrir það kveðst Sverrir ekki hafa séð stað eins og Gelendzhik í Rússlandi. Um er að ræða vinsælan sumarleyfisstað meðal Rússa sem minnir um margt á vinsæla strandbæi á Spáni.
Í viðtali við 433.is í morgun fór Sverrir yfir framhaldið og leikinn gegn Argentínu á laugardag. Hann segir að leikmenn íslenska liðsins hafi byrjað að kynna sér argentínska liðið þegar þeir voru enn á Íslandi en nú, þegar nokkrir dagar eru í leik, fari sá undirbúningur á fullt.
Aðspurður hverjar væntingarnar fyrir leikinn gegn Argentínu væri, sagði Sverrir: „Við höfum sagt það áður að við viljum fara upp úr þessum riðli. Við byrjum bara á Argentínuleiknum. Við vitum að þetta er gríðarlega erfiður andstæðingur með frábæra leikmenn innanborðs og við þurfum bara að byrja að undirbúa okkur vel.“
Sverrir sagði að liðið færi auðvitað í alla leiki til að vinna en þeir væru samt raunsæir fyrir leikinn gegn Argentínu. „En við munum gera allt sem við getum til að ná í úrslit þarna.“