„Ég held að ef eitthvað er þá er þetta bara betra,“ sagði Samúel Kári Friðjónsson fyrir æfinguna í Kabardinka í Rússlandi í morgun.
Óhætt er að segja að gustað hafi um íslenska liðið á æfingunni í morgun, talsverður vindur var á svæðinu sem minnti um margt á vindinn sem stundum gerir knattspyrnumönnum á Íslandi lífið leitt.
Strákarnir létu vindinn þó ekki hafa sérstök áhrif á sig enda eflaust öllu vanir. Samúel Kári sagði til dæmis að það væri í raun bara betra að fá smá vind. Þá minntist Birkir Már Sævarsson, hægri bakvörður íslenska liðsins, á að vindurinn væri kærkominn enda talsverður hiti á svæðinu, eða hátt í 30 gráður yfir hádaginn.
Hér að neðan má sjá viðtal við Samúel Kára Friðjónsson þar sem hann ræðir meðal annars um það þegar hann var valinn í lokahópinn fyrir HM, argentínska liðið og æfinguna í gær sem var fyrir framan fullt af heimamönnum.