Viðar Örn Kjartansson kemur föður sínum, Kjartani Björnssyni, til varnar í færslu á Facebook og segir að hann eigi fullan rétt á að tjá sig án þess að fólk skipti sér af.
Kjartan gagnrýndi á dögunum valið á landsliðshópi Íslands fyrir HM en Viðar hlaut ekki náð fyrir augum Heimis Hallgrímssonar. Í færslu á Facebook rakti Kjartan afrek Viðars fyrir framan markið síðan hann varð atvinnumaður; fyrst í Noregi, svo Kína, Svíþjóð og í Ísrael þar sem hann spilar nú. Með frammistöðu sinni hafi Viðar fengið kallið í landsliðið í undankeppnum EM og HM.
„En þegar kom að vali fyrir stærstu keppnir knattspyrnunnar EM og HM þá var ekkert. Og ekki einu sinni útskýringar hvers vegna hann var ekki valinn, sem mér finnst lágmarks kurteisi.“
Kjartan sagði svo í færslunni að líklega ætti hann að halda sig til hlés og segja ekkert til að skemma ekki stemninguna. Hann hafi þó viljað koma þessu frá sér enda gramur. Kjartan endaði svo færsluna á þessum orðum: „Hvað um það ég óska Íslandi til hamingju með sætið á HM og góðar óskir um gott gengi. Jón Daði okkar maður heldur uppi merkjunum, hann er magnaður.“
Sitt sýndist hverjum um orð Kjartans en Viðar sonur hans sýnir honum stuðning. Hann segir í færslu á Facebook: „Hef ekki einu sinni haft mig í að skoða það en EF Kjartan Björnsson vill tjá sig á Facebook þá gerir hann það. Án þess að allir miðlar á íslandi pikki það upp. Þessi maður tjáir sig sjaldan og ef hann vill gera það þá gerir hann það án þess að fólk eigi nokkurn rétt á því að kommenta á það. Í minnsta lagi Sorglegt hjá toppunum.“