Samkeppniseftirlitið kemst að þeirri niðurstöðu að kaup Kaupfélags Skagfirðinga á Mjólku séu varhugaverð. KS er líka hluthafi í Mjólkursamsölunni. Þannig bítur þetta allt í skottið á sér; einokunin á mjólkurvörumarkaði er nær algjör.
Mjólka hefur svosem ekki verið neitt stórfyrirtæki, Mjólkursamsalan hefur þetta allt í hendi sér. Hún hún hefur lengi komist upp með að kúga þá fáu sem hafa látið sér detta í hug að keppa við hana. Ólafur Magnússon, framkvæmdastjóri Mjólku, þekkir þá sögu manna best. Frammistaða Samkeppniseftirlitsins hefur heldur ekki verið til að hrópa húrra fyrir.
En nú vill Samkeppniseftirlitið láta festa í lög að hægt sé að skipta mjólkurafurðastöðvum upp. Búvörulög fara hins vegar í þveröfuga átt sem og landbúnaðarráðuneytið sem hefur verið eins konar útibú frá Bændasamtökunum, þjónustuaðili fyrir sérhagsmuni – eins og kemur fram í fréttatilkynningu Samkeppniseftirlitsins.
Annars er Kaupfélag Skagfirðinga merkilegt fyrirtæki. Því er stjórnað af Þórólfi Gíslasyni, þekktum manni í íslensku viðskiptalífi. Það hefur vakið athygli að í Skagafirði eru engar Bónusbúðir, ólíkt því sem gerist annars staðar á landinu. Hins vegar selur Kaupfélag Skagfirðinga Bónus reiðarinnar býsn af kjötvöru.