fbpx
Mánudagur 25.ágúst 2025
Eyjan

Um bók Rogers Boyes

Egill Helgason
Þriðjudaginn 8. desember 2009 10:26

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

boyes

Ég sagði í Silfrinu á sunnudaginn að mér þætti bók Rogers Boyes hugsanlega sú besta sem hefur verið skrifuð um hrunið. Ég hef talað við fleiri sem eru sama sinnis. Bókin er það sem kallast blaðamannabók, skrifuð í skyndi í mikilli nálægð við atburðina sem er lýst. Í henni eru vissulega staðreyndavillur eins og oft er í bókum sem eru skrifaðar af slíkum hraða (og líka blaðagreinum), en þær eru ekki svo alvarlegar að þær dragi úr gildi bókarinnar. Mér finnst unggæðningslegur ritdómari DV fara nokkuð geyst í sparðatíningi sínum þar sem hann fjallar um villur í bókinni. Það er farið með rangt ártal um hvenær Davíð Oddsson varð Seðlabankastjóri, en það er augljóslega villa og hefur nákvæmlega engin áhrif á það sem er segir um feril hans í bókinni eða skiling á atburðum.

Og er ekki stórmál þótt ruglast sé á Halldóri Ásgrímssyni í upptalningu aftast í bókinni eða hvort Illugi Jökulsson hafi skrifað bók um Hafskipsmálið – hann hefur skrifað sögulegt yfirlitsrit þar sem er mikið um það fjallað.

Bókin hefur þann kost umfram aðrar bækur sem hafa verðið skrifaðar um hrunið að Boyes hefur meiri fjarlægð, meiri yfirsýn. Og hann er ekki í neinu liði, út frá bókinni er ómögulegt að álykta hvar Boyes stendur í póltík.  Þekking hans á Íslandi er ágæt, enda hefur hann verið að fjalla um landið frá því á tíma þorskastríðanna – hann hefur til dæmis ágætan skilning á því hvernig nábýlið hér virkar, vinaböndin og klíkurnar.

Meginkenning Boyes er sú að hér hafi menn ánetjast friedmannskri hugmyndafræði. En hún hafi blandast íslenska klíkusamfélaginu – hann rekur það nokkuð lipurlega aftur í Menntaskólann í Reykjavík þar sem mektarmenn framtíðar sitja saman á skólabekk. Úr verður sérkennileg blanda af Reagan/Thatcher og klíkustarfsemi.

Á sama tíma voru menn að veikja ríkisvaldið hér, þannig að eftirlit með fjármálakerfinu og einkavæðingunni var mjög lélegt. Þetta tengir hann persónu Davíðs Oddssonar sem vill alltaf vera í aðalhutverki og þolir ekki að neitt skyggi á sig.

Hann segir að Davíð hafi viljað nútímavæða Ísland, draga það út úr söðnun og fásinni – og hrósar honum fyrir það – en segir að því miður hafi hann gert mistök sem ollu því að ævintýrið endaði með skelfngu. Davíð líti svo á að hann hafi sögulegt hlutverk að gegna á Íslandi, og þess vegna geti hann ekki hugsað sér að sleppa takinu. Þegar hann hættir í ríkisstjórn fer hann í Seðlabankann – og heldur áfram að vasast í pólitík í gegnum gamlan vin sinn, veiklaðan formann Sjálfstæðisflokksins, sem Boyes lýsir sem „kjölturakka“. Þetta sé ekki góður grunnur til að stjórna nútímaríki, segir hann.

Davíð hafi þannig opnað dyrnar fyrir menn eins og Jón Ásgeir Jóhannesson (sem hann segir að sé líka nútímavæðari á sinn hátt) gráðuga menn, og saman hafi þeir stýrt Íslandi fram af brúninni. Óvildin milli þeirra sé nokkuð einkennileg – því í rauninni spegli þeir hvor annan.

Eftirlitsstofnanir og Seðlabanki brugðust hroðalega, stofnanir virkuðu ekki og stjórnmálastéttin svaf á verðinum – hún brást skyldu sinni, segir Boyes (an utter dereliction of duty on behalf of the political class). Hæfni í embættismannakerfinu sé heldur ekki hátt á listanum yfir forgangsmál á Íslandi.

Boyes telur að klíkurnar á íslandi, pólitísk vinabönd og samsull stjórnmála og viðskiptalífs eigi mikinn þátt í hruninu. Hann segir meðal annars frá því hvernig klíkurnar fóru af stað á tíma einkavæðingarinnar, hvernig Björgólfarnir komu frá Rússlandi og fengu Landsbankann en leifarnar af Smokkfisknum fengu Búnaðarbankann.

Hann telur að margt af því sem gerðist á Íslandi hafi verið fyrirsjáanlegt. Hrunið hafi í raun verið í kortunum strax árið 2006. Hann vitnar í ítarlega skýrslu Josephs Stiglitz frá árinu 2001, en þá varaði nóbelsverðlaunahafinn við hættunni á að hér yrði blásin upp fjármálabóla. Á hann var ekki hlustað. Eftir 2006 hafi Íslendingar rambað eins og svefngenglar inn í kreppuna, þeir hafi kosið að hlusta ekki á viðvaranir að utan, heldur lokað sig inni í þeirri trú að þetta væru árásir komnar frá óvildarmönnum – og að allt myndi reddast.

Þeir vilji margir trúa því að utanaðkomandi öfl hafi svikið Ísland, en staðreyndin sé samt sú að stór hluti kreppunnar sé Íslendingum sjálfum að kenna. Almenningur hér hafi heldur ekki verið mikið að kvarta þegar vel gekk. Hann varar Íslendinga við að tortryggja útlendinga um of. Við séum einangruð eyþjóð sem þurfum á samskiptum við erlendar þjóðir að halda.

Boyle talar samt af mikilli fyrirlitningu um bresku stjórnina og framkomu hennar í garð Íslands. Hann birtir afrit af frægu símtali Alistairs Darling og Árna Mathiesen til að sýna hvernig hrokafullur breskur ráðherra – sem telur sig hafa heiminn í höndum sér – talar við útkjálkamann af Íslandi. Bretar hafi heldur ekki sérstaklega mikið efni á að líta niður á Íslendinga – með sitt fjármálakerfi í kalda koli.

Hér er svo umfjöllun Andra Geirs Arinbjarnarsonar um bókina, þar sem hann vitnar meðal annars í lofsamlegan ritdóm hins fræga höfundar Roberts Harris sem birtist í The Sunday Times.

Annars stendur bók Boyes alveg fyrir sínu. Ég hvet fólk til að lesa hana sjálft. Hann sér líka skoplegu hliðina á ýmsu – kannski fer það fyrir brjóstið á einhverjum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Prís: Ætlum að opna fleiri verslanir

Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Prís: Ætlum að opna fleiri verslanir
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Svarthöfði skrifar: Eftirlit í þágu milliliða – hver fylgist með eftirlitsmönnunum?

Svarthöfði skrifar: Eftirlit í þágu milliliða – hver fylgist með eftirlitsmönnunum?
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Sítengd og stimpluð

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Sítengd og stimpluð
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Prís: Rangt gefið þegar heildsöluverð til hinna minni er hærra en smásöluverðið hjá þeim stóru

Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Prís: Rangt gefið þegar heildsöluverð til hinna minni er hærra en smásöluverðið hjá þeim stóru
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Nína Richter skrifar: Miðaldra konur í hörtóga á Balí

Nína Richter skrifar: Miðaldra konur í hörtóga á Balí
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Stjórnarskráin og ESB

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Stjórnarskráin og ESB
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Öfugmælavísa ritstjórans – niðurlæging stjórnarandstöðunnar tekur engan endi

Svarthöfði skrifar: Öfugmælavísa ritstjórans – niðurlæging stjórnarandstöðunnar tekur engan endi
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Thomas Möller skrifar: Meiri bjartsýni – minni svartsýni

Thomas Möller skrifar: Meiri bjartsýni – minni svartsýni