Tískukonan Ásta Kristjánsdóttir segir frá því í viðtali við Nýtt líf að hún hafi verið send í æskulýðsbúðir í Austur-Þýskalandi þegar hún var barn.
Þetta var síður en svo einsdæmi, sjálfur þekki ég nokkuð af fólki sem fór í svona búðir – það voru börn fólks sem tengdist Alþýðubandalaginu, Sósíalistaflokknum og vinstri hreyfingunni.
Þetta var ekki neitt leyndarmál, en því var heldur ekki flaggað mikið. Það hefði getað valdið „misskilningi“.
Búðirnar voru reknar af hinni geysiöflugu æskulýðshreyfingu austur-þýska kommúnistaflokksins, Freie Deutsche Jugend. Þetta var ein lykilstofnunin í alþýðulýðveldinu, sjálfur Erich Honecker hafði verið formaður FDJ og síðar tók við því embætti Egon Krenz, sá sem var við völd í Austur-Þýskalandi þegar múrinn féll.
Hér er myndband sem lýsir starfi hinnar frjálsu þýsku æsku, þar má í upphafi sjá hárbreitta gagnrýni Walters Ulbricht á Bítlatónlist, og svo ýmsar myndir úr starfi bláskyrtanna (Blauhemd) eins og hreyfingin var stundum nefnd.
[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=h2mDW4xw8T8]