fbpx
Þriðjudagur 12.ágúst 2025
Eyjan

Friðrik Erlingsson: Reiðin

Egill Helgason
Laugardaginn 2. október 2010 15:14

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Friðrik Erlingsson rithöfundur er höfundur þessarar greinar:

— — —
Reiðin
Á Austurvelli á þingsetningardegi risu margvíslegar reiðibylgjur á loft og sumar þeirra brutust út í ofbeldi í formi eggja og rúðubrota. Slíkt er hvorki líðandi né sæmandi ef fólk vill koma skilaboðum á framfæri. En hver er uppspretta reiðinnar? Hún er fyrst og fremst tilkomin vegna vanhæfni ríkisstjórnarinnar til að taka efnhagsleg vandamál íslenskrar alþýðu föstum tökum; vegna aðgerðarleysis ríkisstjórnarinnar gagnvart ofbeldi banka og fjármálastofnana á hendur einstaklingum; vegna vanhæfni ríkisstjórnarinnar til að koma í veg fyrir að fjármálafurstar sleppi undan öllu á meðan alþýða landsins er hneppt í þrældóm; vegna hagsmunagæslu stjórnmálaflokka og einstaklinga innan flokkanna til að gæta að sér og sínum; vegna svikinna kosningaloforða ríkisstjórnarinnar, en þau svik eru tilkomin að hluta vegna fullveldisafsals í hendur Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.

Af þessum sökum sprettur reiðin og hún er réttlát.

Forseti útlanda

Forsetinn setti þingið einsog sá víðförli ferðalangur sem hann sannarlega er, en ekki sem forseti Íslands; forseti, sem kjörinn var beinni kosningu af landsmönnum. Nei, hann talaði ekki við ‘sitt’ fólk þennan dag; hann talaði við eigendur fjármagns og fyrirtækja og fullvissaði þá um velvilja stórveldanna til að eiga við þá ‘góðan bisness’ í framtíðinni.

Ekki eitt orð í ræðu forseta til almennings í landinu. Ólafur Ragnar Grímsson er fyrsti forseti útlanda á Íslandi.

Bakdyramegin

Þingið flúði úr kirkju inn um bakdyr Alþingis, líkt og héraðshöfðingjar forðum, sem áttu sér leynigöng á milli kirkju og bæjar. Einnig þeir sátu messu og lofuðu guð og laumuðust svo inn í bæinn sinn til að leggja á ráðin gegn andstæðingum sínum. En hverjir eru andstæðingar þingsins og ríkisstjórnarinnar? (í augnablikinu er erfitt að gera greinarmun á þingmönnum og ríkisstjórn, þótt örfáir þingmenn eigi ennþá traust almennings að einhverju leyti; stjórn og stjórnarandstaða eru að stærstum hluta undir sömu sök seldar)

‘Þjóðin’ er andstæðingur þings og ríkisstjórnar, sú ‘þjóð’ sem finnur reiðina blossa upp og getur ekki treyst kjörnum fulltrúum sínum lengur; getur ekki treyst fjölmiðlum til að fjalla hlutlaust um allar hliðar hvers máls, treystir ekki lengur hámenntuðum fræðingum, sem hafa malað og þvaðrað í tvö ár án sýnilegrar niðurstöðu um nokkurn einasta hlut. ‘Þjóðin’ hefur engin tól né tæki til að láta rödd sína heyrast – nema að mæta niður á Austurvöll og hrópa, berja í bumbur og syngja ættjarðarlög fullum hálsi.

Vissulega frumstæð aðferð – en hún er sterk því hún kemur frá hjartanu; hún er réttlát og engin önnur aðferð á betur við.

Tími ‘umræðunnar’ er lokið. Biðtíminn er á enda runninn. Tími aðgerða er genginn í garð, aðgerða alþýðu landsins gegn lögvörðu óréttlæti stjórnvalda í garð landsmanna.

Við þurfum að losna við stjórnmálamenn með svarta fortíð; við þurfum stjórnmálamenn með bjarta framtíð.


Sómi landsins, sverð þess og skjöldur

Við verðum að fá að kjósa að nýju og það sem fyrst. Við verðum að fá tíma fram að kosningum svo einstaklingar, menn með málefni, menn með lausnir, menn án vandamálapakka pólitískrar fortíðar á bakinu eigi þess kost að safna vopnum sínum og bjóða sig fram. Við viljum fá persónu kosningar, við viljum geta valið einstaklinga inn á Alþingi og í ríkisstjórn, með samskonar hætti og kosningareglur til stjórnlagaþings hafa verið ákveðnar; að hver kjósandi fá að raða mönnum í þingsæti, annars vegar og í ríkisstjórn hins vegar.

Þeirri kröfu fáum við ekki framfylgt með eggjakasti eða neins konar ofbeldi – mætum heldur niður á Austurvöll á mánudaginn, hver sem vettlingi getur valdið; berjum stórar bumbur og syngjum ættjarðarlög fullum hálsi.
Því við erum þjóðin – við, sem erum reið og höfum engu að tapa lengur, nema því óréttlæti sem vanhæfir stjórnmálamenn bera fulla ábyrgð á.

Okkar ábyrgð var að kjósa þá; okkar ábyrgð er að koma þeim frá.

Þeir skulu fá að ganga óáreittir útum bakdyr Alþingis og síðan mega þeir hverfa í skuggann.

Við verðum að fá að kjósa þess konar fólk sem við getum með sanni sagt að sé sómi landsins, sverð þess og skjöldur.

Friðrik Erlingsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Guðrún krefst þess að Kristrún segi eitthvað – „Við þurfum að tala skýrt“

Guðrún krefst þess að Kristrún segi eitthvað – „Við þurfum að tala skýrt“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Vinsældir Trump minnka – Þær minnstu á kjörtímabilinu

Vinsældir Trump minnka – Þær minnstu á kjörtímabilinu
Eyjan
Fyrir 1 viku

Helgi Seljan kom Guðlaugi í opna skjöldu – Ber við minnisleysi um sína eigin skýrslu

Helgi Seljan kom Guðlaugi í opna skjöldu – Ber við minnisleysi um sína eigin skýrslu
Eyjan
Fyrir 1 viku

Foringi herforingjastjórnarinnar hrósaði Trump sem aflétti þá refsiaðgerðum og tollum gagnvart landinu

Foringi herforingjastjórnarinnar hrósaði Trump sem aflétti þá refsiaðgerðum og tollum gagnvart landinu
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Orðið á götunni: Tvær flugur slegnar í einu höggi – leiðin út fyrir Guðlaug Þór?

Orðið á götunni: Tvær flugur slegnar í einu höggi – leiðin út fyrir Guðlaug Þór?
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Keisarinn veginn á kamrinum

Björn Jón skrifar: Keisarinn veginn á kamrinum