Við lifðum í samfélagi þar sem allt átti að vera til sölu. Það var hugmyndafræðin sem ruddi sér til rúms á löngu árabili. Ég var hjá Braga áðan og sá hefti af tímariti sem kallaðist Frelsið. Það var frá 1981. Utan á kápu blaðsins var ljóshærð stúlka með blásið hár í bol þar sem stóð „laissez-faire“.
Kannski var það blessun að íslenska efnahagskerfið hrundi árið 2008 áður en nýfrjálshyggjumönnum tókst að koma orkauðlindunum, menntakerfinu og heilbrigðiskerfinu í einkahendur (eða einkavinahendur) – eins og hafði áður verið gert við kvótann og bankana.
Á Íslandi hefur verið nokkuð almennt samkomulag um að menntun og heilbrigðisþjónusta eigi ekki að vera ofurseld gróðafíkn, að samfélagsleg markmið liggi þar að banki.
En á því eru undantekningar. Ýmsir voru farnir að sjá menntamál sem féþúfu. Menntskólinn Hraðbraut er kannski dæmi um það sem hefði getað orðið – skóli þessi naut sérstakrar velvildar hjá menntamálaráðuneytinu, þurfti ekki að endurgreiða ofgreidd gjöld frá ríkinu, en á sama tíma var eigandi skólans að dæla arði út úr skólanum í eigin vasa.