Salvör Gissurardóttir skrifar bloggpistil þar sem hún leggur meðal annars út af leiðara Morgunblaðsins í dag – hún kallar hann „botnlausan og siðblindan“. Í greininni segir meðal annars.
— — —
„Það er ömurlegt að lesa Morgunblaðið í dag. Það sem hefur gerst er að þingnefnd sem skipuð var eftir bankahrunið til að koma með tillögur um viðbrögð þingsins lagði til að fjórir yrðu ákærðir og rökstuddi hvers vegna. Í meðförum þingsins var hins vegar greidd atkvæði svo að einungis einn verður ákærður þ.e. forsætisráðherra, sá sem mesta ábyrgð hafði. Hvað er að því?
Leiðarinn í Morgunblaðinu í dag er ótrúlega vondur og skrifaður af heift og blindni á aðstæður. Það er eins og einhvers konar ofsóknir á hendur þeim Samfylkingar- og Framsóknarþingmönnum sem greiddu atkvæði með því að Geir yrði kallaður fyrir Landsdóm. En hvað er að því að kalla Geir fyrir dóm? Er það verra en að ákæra 9-menningana fyrir að hafa verið í hópi þeirra þúsunda sem gerðu aðsúg að Alþingishúsinu í Búsáhaldabyltingunni? Af hverju má ekki ákæra æðsta mann í stjórnsýslu, mann sem var við völd þegar bankarnir féllu? Vissulega hefðu bankarnir fallið, hjá því var ekki komist en af hverju var á tímabilinu 2006 til 2008 haldið áfram á fullu stími í fáránlegum skrípaleik, hvers konar stjórnvöld leyfa svoleiðis?
Í leiðara Morgunblaðsins í dag er látið að því liggja að Samfylkingin hafi svikið með því að hanna ekki atkvæðagreiðsluna þannig að Geir rétt slippi við kæru. Þetta fréttamat Morgunblaðsins segir allt um á hvaða róli það blað er og hvernig atkvæðagreiðslu voru bara ritúall til að friða almenning og eins konar sýningar. Gervilýðræði. Nú vill Mogginn og Sjálfstæðismenn hefnd, rista á hol þá þingmenn sem ekki kusu eins og hefði komið Sjálfstæðisflokknum best.“