Eitt vandamál stjórnmálanna er að pólitíkusar hafa gullfiskaminni. Það var mikið látið með skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, talað um að hún væri grundvallarplagg við endurreisn Íslands, en nú virðast allir hafa gleymt henni. Spurning hvort þarf að lemja stjórnmálamenn reglulega í hausinn með henni fyrst lestur virkar ekki – þ.e.a.s. ef þeir hafa lesið hana.
Í rannsóknarskýrslunni stendur meðal annars:
„Stjórnmálamenn vanræktu margvíslegar skyldur sínar og brugðust ábyrgð sinni gagnvart almenningi. Vikið var frá eðlilegum starfsháttum við einkavæðingu bankanna og reynslulitlum aðilum treyst fyrir helstu fjármálastofnunum landsins. Viðskiptabankarnir fengu að vaxa langt úr hófi fram sem leiddi til þess að við þá varð ekki ráðið. Látið var undir höfuð leggjast að fá faglegt og óháð mat á stöðu bankanna. Ríkið var skipulega vanrækt enda oftrú á eftirlitsleysi ríkjandi í trausti þess að einkaaðilar myndu ástunda sjálfseftirlit. Vantrú á sérfræðingum og faglegu áliti hefur verið áberandi innan íslenskra stjórnmála, líklega vegna þess að það er talið draga úr valdi kjörinna stjórnmálamanna. Vald einstakra ráðherra kom í veg fyrir að upplýsingaflæði yrði innan ríkisstjórnarinnar. Afleiðingin varð vanmat á aðstæðum og aðgerðaleysi sem varð þjóðinni dýrkeypt. Íslensk stjórnmálamenning hefur einkennst um of af átökum og kappræðu þar sem sanngildi staðhæfinga er lítilvægt í stað rökræðu og sjálfstæðis löggjafans gagnvart framkvæmdarvaldinu. Það voru ekki aðeins eftirlitsstofnanir með fjármálakerfinu sem brugðust hlutverki sínu heldur einnig sú stofnun sem framar öðrum á að gæta almannahagsmuna – Alþingi.“
Þingnefndin sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar orðar það svo í skýrslu sinni, sem ég veit ekki betur en að hafi fengið góðar undirtektir á Alþingi – allt þar til menn þurftu að fara að lesa hana og tileinka sér efni hennar:
„Það er mat þingmannanefndarinnar að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé áfellisdómur yfir íslenskri stjórnsýslu, verklagi hennar og skorti á formfestu jafnt í ráðuneytum sem sjálfstæðum stofnunum sem undir ráðuneytin heyra. Svo virðist sem aðilar innan stjórnsýslunnar telji sig ekki þurfa að standa skil á ákvörðunum sínum og axla ábyrgð, eins og fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Vegna smæðar samfélagsins skiptir formfesta, skráning upplýsinga, verkferlar, tímamörk og skýr ábyrgðarsvið enn meira máli en í stærri samfélögum. Í ljós kemur að upplýsingaskylda ráðuneyta og stofnana, innbyrðis og út á við, virðist ekki hafa verið virk né heldur frumkvæðisskylda, gagnsæi og rekjanleiki.
Þingmannanefndin telur að skortur á viðlagaundirbúningi stjórnvalda til að verja fjármálakerfi landsins og aðra grundvallarhagsmuni ríkis og þjóðar sé afar gagnrýnisverður og á engan hátt í samræmi við það hvernig þjóðir með þróaða fjármálamarkaði og stjórnsýslu ættu almennt að haga starfsháttum sínum. Verk- og ábyrgðarsvið samráðshóps um fjármálastöðugleika var óljóst, heildaryfirsýn var engin og mat og greining á aðstæðum lá ekki fyrir. Þess vegna m.a. voru íslensk stjórnvöld vanbúin til að mæta þeirri yfirvofandi hættu sem íslenska bankakerfið stóð frammi fyrir.
Oddvitaræðið og verklag þess sem tíðkast hefur í íslenskum stjórnmálum undanfarna áratugi dregur úr samábyrgð, veikir fagráðherra og Alþingi og dæmi eru um að mikilvægar ákvarðanir hafi verið teknar án umræðna í ríkisstjórn.
Slíkt verklag er óásættanlegt. Ljóst er að ráðherraábyrgðarkeðjan slitnaði eða aflagaðist í aðdraganda hrunsins og ráðherrar gengu á verksvið hver annars, t.d. þegar fagráðherrar voru ekki boðaðir á fundi um málefni sem heyrðu undir þeirra ábyrgðarsvið. Ábyrgð og eftirliti fagráðherra með sjálfstæðum stofnunum sem undir ráðuneyti þeirra heyrðu virtist verulega ábótavant.“