Það er víðar en á Íslandi að stjórnmálin eru í ömurlegu ásigkomulagi.
Timothy Garton Ash skrifar um pólitíkina í Bandaríkjunum. Hann vitnar í bandarískan hershöfðingja sem sagði að mesta ógn sem steðjaði að ríkinu væru skuldir.
Bandaríkjamenn hafa einblínt á íslamska hryðjuverkamenn og Írak. Garton-Ash segir að sigurvegari Íraksstríðsins sé Íran og að sigurvegari stríðsins gegn hryðjuverkum sé Kína.
Kínverjar skjótast fram á mörgum sviðum, það eru lagðar nýtískulegar járnbrautir milli borga í landinu meðan samgöngukerfinu í Bandaríkjunum hnignar og hið opinbera skólakerfi er í niðurníðslu.
Á meðan einkennast bandarísk stjórnmál af hatri og illindum og peningaöflin hafa heljartak á þingmönnum.
Garton-Ash segir að bestu hliðar bandarísks samfélags sé nú að finna í Sílíkondal í Kaliforníu þar sem fólk úr öllum heiminum kemur og þróar nútímatækni, verstu hliðarnar sé hins vegar að finna í Washington.
Hann vitnar í öldunginn Zbigniew Brzezinski, fyrrum öryggisráðgjafa Jimmy Carter, sem segir að þörf sé á þjóðlegri endurreisn í Bandaríkjunum.