Í Kiljunni í kvöld förum við á Þórbergssetrið að Hala í Suðursveit. Við heimsóttum Skaftafellssýslur í sumar og söfnuðum miklu efni, en í þetta sinn setjumst við í skrifstofu Þórbergs Þórðarsonar og fræðumst um útgáfu „stóra handritsins“ svokallaða en það var sett á bók í sumar undir nafninu Meistarar og lærisveinar.
Við fjöllum um lestölvur – tæki eins og Kindle og iPad, en líklegt er að þær muni í framtíðinni valda mikilli byltingu í því hvernig við notum lesefni, bæði bækur og blöð – og þá vaknar líka hin eilífa spurning hvernig við gætum íslenskrar tungu. Enn eru ekki gefnar út neinar bækur fyrir lestölvur á íslensku.
Við ræðum við bandaríska rithöfundinn Christinu Sunley, en hún er höfundur bókarinnar Tricking of Freya sem hefur í íslenskri þýðingu titilinn Freyjuginning. Christina er af vestur-íslenskum ættum – við sýnum líka brot úr stórmerkilegri kvikmynd sem Kanadastjórn lét gera um Vestur-Íslendinga árið 1941 og nefnist Ísland á sléttum Kanada.
Kolbrún og Páll Baldvin fjalla um Íslenska þjóðhætti eftir Jónas frá Hrafnagili og ljóðabækur eftir Anton Helga Jónsson og Þórdísi Gísladóttur – sú síðarnefnda hreppti verðlaun Tómasar Guðmundssonar sem voru afhent í gær.
En Bragi talar meðal annars um Dunganon, Karl Einarsson, sem einnig kallaði sig Greifann af Sánkti Kildu.
Skrifstofa Þórbergs Þórðarsonar hefur verið endurgerð á Þórbergssetrinu. Þar má meira að segja ganga út á svalirnar á Hringbraut 45.