Listahátíð í Reykjavík byggði á upphafsárum sínum á Vladimir Ashkenazy sem þá var orðinn íslenskur ríkisborgari, burtflúinn frá Sovét, giftur íslenskri konu.
Ashkenazy kom hingað með fjölda af vinum sínum. Listinn er ótrúlega glæsilegur. Þetta var besta unga tónlistarfólkið á þeim tíma, urðu heimsnöfn sem stafar ljómi af.
Þarna má nefna Daniel Barenboim, Jaqueline du Pré, Itshak Perlman og André Previn. Sumt af þessu fólki kom oftar en einu sinni.
Það var nefnt á blaðamannafundi í gær að Karl Bretaprins myndi kannski koma á opnun tónlistarhússins Hörpu næsta vor.
En ef væri hægt að fá píanóleikarann, hljómsveitarstjórann, mannvininn og snillinginn Barenboim – já, þá væri aldeilis hægt að halda hátíð.
Mætti jafnvel sleppa prinsinum.
Daniel Barenboim og Jacqueline du Pré léku á fyrstu Listahátíðinni í Reykjavík 1972. Þau voru þá ung og glæsileg hjón, en stuttu síðar veiktist du Pré af MS-sjúkdómnum og dó fyrir aldur fram.