Gunnar Tómasson hagfræðingur sendir þetta bréf sem hann stílar á alþingismenn.
— — —
Ágætu alþingismenn.
Í dag, 16. september 2010, kvað Hæstiréttur upp dóm í máli nr. 471/2010 sem byggði á forsendu sem Seðlabanki Íslands setti fram í svarbréfi sínu til Umboðsmanns Alþingis dags. 23. júlí 2010 varðandi rökrétt samband samningsvaxta og gengisbindingar lána í íslenzkum krónum. Þar sem umrædd forsenda er rökleysa, þá er annað af tvennu rétt:
1. Dómarar Hæstaréttar hafa ekki hugsað málið.
2. Dómarar Hæstaréttar hafa hugsað málið.
Og er hvorugur kosturinn góður.
Í tölvupósti dags. 27. júlí 2010 vék ég að viðkomandi rökleysu sem hér segir:
Eftirfarandi málsgrein á bls. 2 í bréfi Seðlabanka Íslands til Umboðsmanns Alþingis felur í sér álit SÍ og FME sem er út í hött en er engu að síður forsenda allrar umfjöllunar SÍ og FME um vaxtaviðmið í bréfinu:
Því hefur verið haldið fram af hagsmunaaðilum að dómur Hæstaréttar feli í sér að hinir erlendu vextir sem upphaflega var samið um skuli haldast þrátt fyrir að tenging þess hluta höfuðstólsins sem slíka vexti bar við gengi viðkomandi erlends gjaldmiðils hafi verið rofin. Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið (FME) telja slíka túlkun órökrétta og að ósennilegt sé að Hæstiréttur muni komast að slíkri niðurstöðu í dómum sem líklegt er að falli á næstunni. Það gæti hins vegar valdið umtalsverðum óstöðugleika og skaðað almannahagsmuni ef látið yrði undan þrýstingi sérhagsmunaafla varðandi uppgjör skulda allra þeirra sem teldu sig eiga rétt á uppgjöri vegna meintra óskuldbindandi gengistryggingarákvæða í samræmi við upphaflega erlenda samningsvexti.
Gengisbinding höfuðstóls krónulána tryggir lánveitendur gegn hugsanlegu gengistapi á lánstímanum.
Vaxtaákvæði slíkra lána endurspegla því þá vexti sem lánveitendur sætta sig við að óbreyttu gengi.
Ef gengisbindingin er lögleg, þá er ekki meira um málið að segja.
Ef gengisbindingin er ólögleg – og lánveitendur komast ekki upp með hana – þá er heldur ekki meira um málið að segja að óbreyttu gengi.
Það er ljóst að SÍ og FME telja að Hæstiréttur eigi/hljóti að breyta samningsvöxtum lánveitendum í hag.
Eðli málsins samkvæmt byggist sú skoðun ekki á „rökum“ þannig að það sé „rökleysa“ að vera á annarri skoðun.
Virðingarfyllst,
Gunnar Tómasson, hagfræðingur