Ólafur Kristinsson, héraðsdómslögmaður og fyrrverandi hluthafi í Landsbanka Íslands, skrifar grein í Viðskiptablaðið í morgun. Greinin fjallar um eign Björgólfs Thors Björgólfssonar í Landsbanka Íslands og útlán bankans til hans. Svo hljómar niðurlag greinarinnar:
— — —
Ég tel mikilvægt að FME og slitastjórn LÍ stígi fram og gefi hluthöfum skýringar á því hvort umrætt eignarhald náinna samstarfsmanna Björgólfs teljist eðlilegt og hvort það brjóti í bága við lög, tilmæli FME og alþjóðlega reikningsskilastaðla. Ég byggi mat mitt einungis á opinberum upplýsingum og líklega er of snemmt að kveða upp um sekt eða sakleysi Björgólfs og LÍ í þessu máli. Hinsvegar tel ég líkur á því að Björgólfur Thor Björgólfsson og hugsanlega einnig stjórnendur LÍ hafi beitt hluthafa, endurskoðendur, matsfyrirtæki, skuldabréfaeigendur hér heima og erlendis, FME og Kauphöll Íslands blekkingum. Ef sýnt verður fram á að Björgólfur hafi í raun ráðið yfir 5% eignarhlut samstarfsmanna sinna með beinum eða óbeinum hætti má álykta sem svo að lán LÍ til hans hafi verið langt umfram lögbundnar heimildir og ársreikningar bankans ekki gefið rétta mynd af útlánaáhættu og lánum til tengdra aðila. Miðað við opinberar tölur má telja líklegt að áhættuskuldbindingar LÍ gagnvart Björgólfi hafi numið um eða yfir 50% af CAD eigin fé bankans sem er langt umfram heimildir. Ég tel óhætt að álykta að hagsmunaðilar bankans, þ.m.t. hluthafar og skuldabréfaeigendur hefðu ekki verðmetið bankann á sama hátt, hafandi þessar upplýsingar sem voru á þeim tíma ekki aðgengilegar almenningi. Ávinningur Björgólfs Thors er augljós. Umrædd skilgreining gaf honum aukið aðgengi að lánsfé fyrir fjárfestingar sínar og þá hugsanlega á kostnað hluthafa bankans.
Skaði hluthafa bankans af vafasamri útlánastefnu stjórnenda hans er mikill og um það verður ekki deilt. Um 27.000 hluthafar í bankanum töpuðu allri eign sinni við fall hans. Nú hljótum við hluthafar að krefjast skýringa frá Björgólfi Thor sjálfum, FME og slitastjórn LÍ. Skaðabótamál á hendur Björgólfi Thor Björgólfssyni hlýtur að koma til skoðunar.