Lesandi síðunnar sendi þessa grein:
— — —
Nú skýst upp enn eitt fréttaflóðið um mögulegt samstarf Íslands og Kína. Fréttir sem virðst að mestu samdar á skrifstofu forsetaembættisins. Stundum skiptir skrifstofan um gír og skellir á okkur mögulegum samstarfsfréttum við Indland. Lýsingar eru samdar um gríðarlegar fjárfestingar (í þessu tilfelli Kínverja) og ekkert sparað í gleðinni. Í dag skal setja samstarf okkar við Kína á annað plan.
Athyglivert er að fylgjast með viðbrögðum Íslendinga sjálfra. Ég þekki þá af því (giska 70% þeirra) að fjargviðrast yfir mögulegu samstarfi við ESB. Þar er fullveldið í stórkostlegri hættu, og mér skilst að ESB muni éta okkur með húð og hári.
En viðbrögð Íslendinga við mögulegu „samstarfi“ við Kína, einræðisríki með íbúafjölda sem er kannski milljónfaldur, eða Indverja sem eru kannski fimmhundruðþúsund sinnum stærri en við með stjórnkerfi og mannréttindi sem er ekki upp á marga fiska, ja okkur finnst þetta bara fínt! Bara assgoti flott! Engin umræða um fullveldið, eða að við verðum gleyptir með húð og hári af einhverjum útlendingum. Nei, þetta ógnar ekki hinni vitru íslensku þjóðarsál.
Við greiningu á hinni íslensku þjóðarsál er gott að hafa útlenskan frasa í huga: Stop making sense out of nonsense!