Það er talað um að við höfum verklitla ríkisstjórn. Það er reyndar ekki alveg víst – þótt í mörgu séu henni mislagðar hendur. Hún hefur altént stór áform.
Stjórnin hefur það verkefni að endurreisa íslenska efnahagskerfið, hvorki meira né minna.
Hún ætlar sér að standa fyrir breytingum á stjórnarskrá lýðveldisins.
Hún hefur sett sér það markmið að breyta stjórnkerfi fiskveiða.
Á vakt þessarar ríkisstjórnar er verið að semja um aðild Íslands að Evrópusambandinu.
Og það er verið að gera upp mál tengd hruninu með ýmsum hætti: Hjá saksóknara sem er sérstaklega skipaður til þessa starfa og svo hjá rannsóknarnefnd Alþingis – og síðan hjá þingmannanefnd sem rýndi í skýrslu rannsóknarnefndar og dró af henni ályktanir.
Þingmannanefndin lagði til margvíslegar breytingar sem verður mikið verk að koma í framkvæmd, en flestar virðast þær tillögur vera mjög til bóta.
Athyglin beinist hins vegar mestöll að landsdómi og hvort eigi að draga nokkra ráðherra fyrir dóminn. Í þessari umræðu skynjar maður ákveðna uppgjörsþreytu. Það er mjög skiljanlegt. Slíkt gerist í samfélögum þar sem svona áföll verða – fólk verður leitt á að rýna í fortíðina, hið óstöðuga fjölmiðlaálit fer að snúast, úthaldið brestur. Eva Joly hefur talað um þetta sé eðlilegur gangur mála.
Maður hefur skynjað ýmsar tilfinningar frá því í hruninu, reiði, vonleysi, jafnvel bjartsýni um tíma, en svo fer lífið að ganga sinn vanagang – og það er mjög mannlegt.
Rannsóknin er hins vegar ferli sem var sett í gang stuttu eftir hrun og þingmannanefndin er í raun bara að halda henni áfram eins og fyrir hana var lagt – og auðvitað þarf að klára málið.