Borgarstjórnarkosningarnar síðustu einkenndust fyrst og fremst af miklu og óvæntu fylgi Besta flokksins. Um leið var lýst frati á stjórnmálaflokkana.
Þannig að það var ekki mikið um hefðbundin kosningamál. Þau hafa oft verið skrítin í borgarstjórnarkosningum eða hver man ekki eftir Íkarus-strætisvögnunum, sprungusvæðiu við Rauðavatn og Geldinganesinu?
En aðalkosningamálið hefði auðvitað átt að vera Orkuveita Reykjavíkur.
Ég fjallaði nokkrum sinnum um hana í Silfri Egils síðastliðin vetur, meðal annars með Andra Geir Arinbjarnarsyni sem hafði skrifað um hana á vef sinn og taldi rétt að færi fram opinber rannsókn á fyrirtækinu. Andri Geir var líka búinn að spá gjaldskrárhækkununum fyrir kosningar, þær voru óhjákvæmilegar þótt pólitíkusar létu eins og svo væri ekki.
Það var eins og við manninn mælt að upplýsingadeild Orkuveitunnar hóf að hamast í mér með símhringingum og meldingum um að þetta væri málflutningur sem mætti alls ekki viðhafa. Ef ég man rétt var líka haft samband við yfirmenn á RÚV vegna þessa.
Nú kemur í ljós að það þarf að hækka orkuna um að minnsta kosti 20 prósent til að Orkuveitan eigi fyrir skuldum. Ekki er ólíklegt að von sé á frekari hækkunum. Þetta fyrrum stolta fyrirtæki borgarbúa er á heljarþröm – og rétt er hjá Vilhjálmi Ara Arasyni að táknmynd um það er Orkuveituhúsið upp á Bæjarhálsi.
Mér varð fyrir nokkrum árum á að kalla þetta hús „musteri spillingar“ – það var meðan allt virtist leika í lyndi. Þá fór upplýsingadeildin líka hamförum – ég verð að viðurkenna að mig grunaði ekki hvað ég hafði mikið rétt fyrir mér þá.