Í fjölskyldu minni hefur það skolast aðeins til og þeir kallast píreneafiskar – heita auðvitað piranha.
Við höfum heldur fábrotinn smekk – já og heimili okkar er látlaust – og margoft höfum við leikið okkur á strönd eða í sundlaug og ímyndað okkur að píreneafiskar sæki að okkur. Í leiknum eru píreneafiskarnir á ýmsum stöðum í veröldinni, ekki bara í Amazonfljótinu. Þeir eru kjaftstórir, með beittar tennur og glorsoltnir.
Mótívið er gjarnan grunlaus kona sem sólar sig á vindsæng. Hún rekur svo upp mikið óp þegar fiskarnir byrja að narta í hana og toga hana loks niður í djúpið þar sem hún er étin upp til agna. Það heyrist mikið glúbb glúbb þegar hún hverfur.
Já, svona eins og plakatið að nýju píreneafiskamyndinni, Piranha 3D, sem sló í gegn í Bandaríkjunum um helgina. Það liggur við að manni finnist að það sé búið að stela þessu frá manni, en auðvitað er þetta endurgerð af gömlu myndinni sem hét einfaldlega Piranha. Munurinn er að nú eru fiskarnir í þrívídd – ætli það auki á óhugnaðinn?