Sheryl WuDunne og Nicholas Kristof hafa farið um heiminn, rannsakað kúgun á konum og skrifa sláandi bók sem nær algjörri metsölu. Það á að gera sérstaka sjónvarpsþætti upp úr bókinni. Maður skyldi halda að þetta væri fagnaðarefni fyrir alla sem láta sér jafnrétti kynjanna varða. Þetta er verk af því tagi sem getur hjálpað til að vekja fólk til vitundar um skelfilegt vandamál.
En nei, það er ekki nógu gott.
Þau gera þetta víst ekki á réttan hátt. Nálgunin er ekki eftir réttri forskrift. Þetta minnir á marxistana í eina tíð sem þótti ekkert varið í þjóðfélagsgreiningu nema hún væri gerð á forsendum díalektískrar efnishyggju – ef hún var á „borgarlegum“ forsendum var eins líklegt að hún væri einskis virði. Þannig voru margir höfundar léttvægir fundnir.
Silja Bára Ómarsdóttir, kennari við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands skrifar:
„Það er ekkert nýtt í erindi WuDunn, þó það sé skemmtilegt og vel flutt. Þarna eru staðreyndir sem ég hef sjálf talað um í fyrirlestrum og einkasamtölum svo árum skiptir. Það, að þetta séu sláandi upplýsingar fyrir svo marga, segir mér það eitt að fólk hafi ekki áhuga á breytingum. Eða að það sé auðveldara að sjá flísina í augum nágrannans en bjálkann í sínu eigin.“