Skriftir eru sakramenti í kaþólsku kirkjunni. Það fyrirkomulag að sóknarbarn geti farið í skriftastól til prests, játað syndir sínar og fengið fyrirgefningu.
Það má kannski segja að þetta sé dæmi um hversu veraldleg kaþólska kirkjan er, páfinn er staðgengill Guðs á jörð og frá honum kemur valdið – það er býsna einkennileg hugmynd að einhver pokaprestur geti tekið syndirnar af fólki.
Í þessu dæmi felst að presturinn er bundinn þagnareiði. Hann má ekki skýra frá því hvað var sagt í skriftastólnum. Þagnarskyldan er mjög rík – utanaðkomandi kann að virðast þetta fyrirkomulag ofbjóðanlegt. Það er ömurlegt að fylgjast með þeim sóðamálum sem hvað eftir annað koma upp í kaþólsku kirkjunni og grafa mjög undan stöðu hennar. Það er líkt og að þar þyki stærri synd að vígja kvenprest en að níðast á barni.
Skriftir eru ekki sakramenti í lútersk evangelískri kirkju. Það er ekki á færi prestanna að veita fyrirgefningu synda. Það er sjálfsagt að prestar haldi trúnað við sóknarbörn sín og séu ekki að blaðra um leyndarmál þeirra út um allar koppagrundir. Prestarnir stunda sína sálgæslu en að þeir eigi að þegja um glæpi er fráleitt – jafnvel þótt sumir klerkar vilji setja sig á háan hest hvað þetta varðar.