Oft hefur verið endurtekið að íslenska bankakerfinu hafi ekki verið viðbjargandi eftir 2006. Þá þegar var reksturinn orðinn glórulaus.
Á varnarsíðu Björgólfs Thors sem nú hefur verið opnuð segir að Davíð Oddsson hafi sagt að íslensku bankarnir hafi verið teknir yfir af glæpamönnum sem ætluðu að gera Ísland gjaldþrota.
Þegar lesin er rannsóknarskýrsla Alþingis er reyndar erfitt að komast að annarri niðurstöðu en að hann hafi haft rétt fyrir sér – þótt raunar hafi hann sjálfur handvalið suma af þessum mönnum til að eiga banka.
Þar stendur líka að Davíð hafi þvælst fyrir því að tekið yrði stórt erlent lán vorið og sumarið 2008. Eftir á að hyggja virðist ekki skipta máli hversu stórt lánið hefði verið – bankarnir hefðu hvort eð er farið á hliðina.
En manni sýnist að þarna sé verið að ýja að því að seðlabankastjórinn hafi verið í hefndarhug, að hann hafi strax á þessum tíma verið harður á því að bönkunum yrði ekki bjargað. Er það skilningur Björgólfs Thors?
Í skýrslunni stendur:
„Davíð Oddsson seðlabankastjóri tjáði mönnum um sumarið 2008 að íslensku bankarnir hefðu verið „teknir yfir af glæpamönnum“, sem ætluðu sér að gera Ísland gjaldþrota. Fyrir liggja vitnisburðir þriggja manna úr ólíkum áttum sem áttu samtöl við Davíð í júní og júlí. Boðskapur Davíðs á þeim tíma var skýr: „Bönkunum verður ekki bjargað.“ Þá hefði hann einnig látið þess getið að hann stæði sjálfur persónulega í vegi fyrir því að tekið yrði stórt erlent lán til að styrkja gjaldeyrisvaraforðann.“
Það var rætt um risastórt lán frá Rússlandi, það var á síðustu metrunum, þegar örvæntingin var orðin algjör. Þá voru sumir alveg búnir að tapa sér, virðast hafa talið að það væri betra að fá slíka lánafyrirgreiðslu frá Rússum fremur en að leita á náðir alþjóðastofnunar eins og AGS.
Því líklega hefði verið betra ef Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hefði komið fyrr á svæðið, eins og Gordon Brown lagði til. Þá má minna á boð Mervyns King, bankastjóra enska seðlabankans, um að hjálpa við að vinda ofan af íslenska bankakerfinu.
Það er sama hvert litið er: Vanhæfnin og klúðrið var algjört.
Annars á kannski ekki að eyða of mörgum orðum á þetta – skýrsla Björgólfs er tekin saman af áróðursdeild hans þótt sagt sé að tilgangurinn sé að miðla upplýsingum. Sérlega ótraustvekjandi er að aðalhöfundurinn er sagnfræðingur sem einnig skrifaði varnarrit fyrir föður hans. Þetta þarf að hafa í huga við lesturinn.