Á Íslandi fórna menn höndum ef á að láta útlendinga borga svo mikið sem hundraðkall fyrir að komast inn á ferðamannastaði. Svo fer maður til útlanda og borgar of fjár fyrir að skoða vinsæla staði.
Svona er þetta heldur ekki í Rússlandi.
Ég var að athuga með að komast á sýningu í hinu fræga Marinskí leikhúsi í Pétursborg.
Það var tvennt í boði. Tónleikar þar sem er flutt hið magnaða verk Babi Yar eftir Shostakovits – en þar sem kemur líka fram níu ára einleikari frá Kína í píanókonsert eftir Sovéttónskáldið Kabalevskí.
Og svo balletsýning þar sem er dansað við Carmensvítu Bizets og Leningradsinfóníu Shostakovits.
Mér líst betur á það en kínverska undrabarnið.
Vandinn er bara sá að miðarnir eru svo helvíti dýrir. Kosta sem svarar tugum þúsunda.
Svo sá ég að það væri „sérstakt verð“ fyrir suma.
En þegar nánar er að gáð eru þessir sumir „rússneskir borgarar“. Hinir, útlendingarnir semsagt, þurfa að borga „fullt verð“ – sem er sirkabát helmingi hærra.
Það kostaði næstum fimmtán hundruð kall á mann að komast inn í Kirkju frelsara vors á hinu úthellta blóði í Pétursborg í dag.
Rússland er hugsanlega dýrasta land í heimi fyrir ferðamenn. Moskva er þó nokkuð dýrari en Pétursborg. Verðið á hótelgistingu er geðbilað og matarverð slíkt að maður furðar sig á því hvernig borgarbúar draga fram lífið. En þá er þess að gæta að í landinu hefur orðið til fjölmenn auðstétt sem veit ekki aura sinna tal og nýtur mikilla forréttinda – meðan alþýða manna býr við afar léleg kjör.
Sígarettur eru hins vegar ódýrar og vodka. Hér úti í búð er hægt að fá karton af amerískum sígarettum fyrir rúmlega þúsundkall íslenskan.
Það er eins og Rússar kunni ekki annað kerfi en að hafa forréttindastétt sem riðlast á bakinu á alþýðunni, svona var það á keisaratímanum, og svona varð það brátt á tíma kommúnismans og svo þegar hann féll sá einhvers konar blanda af frjálshyggju og þjófræði til þess að svo yrði áfram.
Það væri gaman að fara í Marinskí – ef maður tímdi því.