Það hafa verið færðar sönnur á að ákvörðunin um að byggja risastóran spítala á gömlu Landspítalalóðinni hafi tekið sjálfa sig.
Þ.e. það er ekki hægt að rekja ferli þessarar ákvörðunar. Einhvern tíma var hún orðin að veruleika; Davíð Oddsson lagðist inn á spítala, Alfreð Þorsteinsson var allt í einu orðinn byggingastjóri, svo kom efnahagshrun, og þá var farið að tala um að lífeyrissjóðir ættu að setja peninga í þetta.
Það er svo dæmi um óstjórn í skipulagsmálum í Reykjavík að þegar er búið að laga gatnakerfið í Vatnsmýrinni að spítalabyggingunni – sem þó er langt í frá risin.
Og rís kannski aldrei, því sumir stjórnmálamenn virðast vera að átta sig á því hvílíkt endemis klúður þessi byggingaáform eru, bæði efnahagslega – á tíma þegar er ekki til fé til að reka spítala – og skipulagslega.