Hér á síðunni hef ég undanfarið birt nokkrar greinar um orkuauðlindir Íslendinga – og meðal annars nefnt tregðu lífeyrissjóða til að fjárfesta í þeim. Í því felst nokkur þversögn því atvinnu- og verkalýðsrekendur sem stjórna sjóðunum eru sífellt að hvetja til þess að orkan sé notuð, en þegar á hólminn er komið vilja þeir ekki leggja fé í nýtingu hennar.
Ólafur Margeirsson hagfræðinemi hefur skrifað tvo pistla um þetta á vef Pressunnar og nefnir til sögunnar 3,5 prósenta ávöxtunarkröfu lífeyrissjóðanna.
Fyrri pistill Ólafs er hér, seinni pistillinn hérna. Þar segir meðal annars:
„Afnám 3,5% ávöxtunarkröfugólfsins er algjört þjóðþrifamál! Meðan lífeyrissjóðirnir ráða yfir jafnmiklu af heildarfjármagni íslenska hagkerfisins og raun ber vitni þá mun fjárfesting, sökum of hárrar ávöxtunarkröfu skuldaviðurkenninga, vera í lágmarki og atvinnustig lágt. Lægra atvinnustig leiðir svo enn frekar til minni neyslu, lægri fjárfestingar og svo koll af kolli.
Væru menn hræddir við að lífeyrissjóðirnir vönduðu ekki lengur valið á fjárfestingum eftir að 3,5% gólfið væri afnumið mætti lækka það niður í 0,0% þ.e. skylda sjóðina til að ná a.m.k. jákvæðri raunávöxtun. Það væri betra en ekki neitt. Önnur hugmynd væri að miða við raunstýrivexti Seðlabanka Íslands. Það myndi líka styrkja miðlun peningamálastefnunnar gríðarlega; að neyða lífeyrissjóðina, handhafa meirihluta sparnaðar íslenskra heimila, til að elta, með ákveðnum vikmörkum, raunstýrivexti Seðlabankans myndi tryggja miðlun stýrivaxta í gegnum allt vaxtarófið, frá skammtíma vöxtum til langtíma; Seðlabankinn gæti stjórnað raunvöxtum til langs og skamms tíma nær því blindandi!
Að minnsta kosti er alveg ljóst að flöt og föst 3,5% krafa gerir meira illt en gott því sökum hennar fylgja fjármagnsmarkaðir hagsveiflunni ekki lengur nægilega vel eftir. Má benda á að í dag eru raunstýrivextir Seðlabankans svo að segja neikvæðir en ekki er að sjá að fjármagnsmarkaðir, undir áhrifum lífeyrissjóðanna, taki alfarið mark á því.
Það er annað sem einnig er vert að benda á; háir innlendir vextir í krónum hvetja einstaklinga og fyrirtæki til þess að taka erlend lán þar sem ávöxtunarkrafan er lægri; lítum á Orkuveituna og Landsvirkjun því til stuðnings. Það býður upp á klassíska uppsöfnun skulda í erlendri mynt með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á fjármálalegan stöðugleika. Væri ávöxtunargólfið afnumið myndu íslenskir vextir lækka, fyrirtæki og einstaklingar taka í auknum mæli lán í íslensku fjármagni og skuldastaða þjóðarbúsins í erlendri mynt lækka. Væri þar með stuðlað að fjármálalegum stöðugleika sem síður en svo er vanþörf á.
Það má þó ekki gleyma því að það væri að sjálfsögðu sumum sárt að fella niður lágmarkskröfuna. Vextir myndu lækka verulega og lífeyrissjóðsréttindi, gefið að innborgun í sjóðina héldist sú sama, vafalítið vera endurskoðuð niður á við í einhverjum tilfellum. Íbúðalánasjóður myndi einnig lenda í enn meiri vandræðum en hann nú þegar er í.
En það er erfitt að réttlæta það að hafa heimatilbúna of háa vexti sem e.t.v. koma sér vel fyrir þá sem hafa greitt mest inn í lífeyrissjóði ef það kostar það að skilja hagkerfið eftir sem rjúkandi rúst. Eins og Arnar segir sjálfur; “Tólfti hver aðili sem greiddi í lífeyrissjóði er núna atvinnulaus [sem skerðir mjög flæði fjármagns inn í sjóðina, sem aftur leiðir til lækkunar á réttindum]. Við teljum mjög mikilvægt að koma hjólum atvinnulífsins á stað á nýjan leik.” Þeim hjólum verður ekki snúið aftur nema með lækkun langtíma vaxta. Áhrifaríkasta leiðin til þess er afnám ávöxtunarkröfugólfsins.
Niðurstaðan er einföld; sé 3,5% ávöxtunarkröfugólf lífeyrissjóða ekki afnumið hið snarasta mun hagkerfinu blæða út. Hægt en örugglega.“