Joschka Fischer, fyrrverandi utanríkisráðherra Þýskalands, vandar Angelu Merkel ekki kveðjurnar í viðtali í Der Spiegel. Segir að hún hafi brugðist alltof seint við á örlagastundu þegar sótt var að evrunni.
Fischer segir að krísa evrunnar sé þess eðlis að nú sé einungis möguleiki fyrir Evrópu að fara í eina átt – í átt til aukins pólitísks samruna. Menn hafi lokað augunum fyrir því að evran gæti ekki gengið án þessa – það hafi verið sjálfsblekking – en eftir hinar stóru björgunaraðgerðir nú í vor sé ekki önnur leið í boði. Maastricht viðmiðin hafi eingöngu virkað þegar efnahagsástandið var gott. Sum ríki þurfi að verða samkeppnishæfari, það dugi heldur ekki að einhver ríkjanna setji eftirlaunaaldurinn á 55 ár meðan önnur miða við 67 ár. Þannig þurfi samhæfðari efnahagsstjórn, skatta og reglur um velferðarþjónustu.
Fischer segir líka að það sé ekki rétt að Þýskaland sé að borga fyrir snauðari lönd eins og Grikkland. Ef slík ríki hefðu enn þá sinn eigin gjaldmiðil hefði hann löngu verið búið að fella hann með tilheyrandi skaða fyrir þýskan útflutning. Þýskaland hafi þannig notið góðs af evrunni.