Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að sjá Paul McCartney á tónleikum í París í kvöld.
Gamla átrúnaðargoðið.
Hann er ótrúlega hress sextíu og níu ára maður – spilaði og söng af miklum krafti í þrjá klukkutíma, án þess að blása úr nös.
Stökk á milli bassagítars, nokkurra gítara og tveggja píanóa.
Í öðru uppklappinu þegar maður hélt hann myndi fara að slaka á tók hann fyrst Yesterday einn með kassagítarinn, svo var hann á bassanum í svaka kröftugri útgáfu af Helter Skelter og loks lék hann á gítar og píanó í síðasta hluta Abbey Road svítunnar.
Hljómsveitin sem McCartney hefur sér til fulltingis er líklega eitthvert þéttasta rokkband sem er til – þetta eru allt spilarar sem hafa verið með honum í mörg ár.
Áhorfendur klöppuðu og stöppuðu og fögnuðu ákaft – það er merkilegt að sjá hvað McCartney hefur gaman af því að spila fyrir áhorfendur, eftir öll þessi ár er spilagleðin smitandi og ósvikin.
Tíminn líður, tveir Bítlanna eru dánir og það er hjá McCartney að maður heyrir einn úr hljómsveitinni flytja lögin þeirra. Brátt verður það ekki lengur og það er spurning hvort McCartney gerir sér grein fyrir því – að hann sé að sumu leyti að spila í kappi við tímann.
Lögin fá að sumu leyti nýja merkingu við þessa tilhugsun – sömu hugsanir leituðu á mig á tónleikum með Paul Simon í sumar, eftir Simon liggur líka mikið af frábærum lögum en hann varð sjötugur nú október.