Það hafa verið í gangi viðræður um fríverslunarsamning við Kína. Þær hafa verið í pattstöðu og skýringarnar eru í rauninni ekki flóknar. Það er erfitt að gera fríverslunarsamning við ríki eins og Kína.
Kína er ekki réttarríki, öll völd þar er í höndum klíku sem nefnir sig kommúnistaflokk, aðbúnaður verkafólks þar er skelfilegur og Kína getur undirboðið flest lönd í heiminum hvað vinnuafl varðar. Kína virðir ekki reglur um höfundarrétt og gagnkvæmni er ekki fyrir hendi – Kínverjar falast eftir því að kaupa land og fjárfesta á Vesturlöndum en setur miklar hömlur á landakaup og fjárfestingar í Kína. Kína framleiðir ótrúlegt magn af varningi sem er framleiddur við lítinn tilkostnað, fluttur út og grefur undan iðnaði og verslun í ríkjunum sem kaupa af þeim, en á móti eru Kínverjar tregir á að kaupa vörur frá öðrum löndum.
Nú velta menn því fyrir sér hvort synjun innanríkisráðherrans vegna landakaupa Huangs Nubo hafi áhrif á fríverslunarviðræðurnar við Kína – það er spurning. En Kínverjar hefðu ekki gefið eftir það sem þeir voru að falast eftir af Íslendingum.