Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segist „bjartsýnn“ á að kosningar verði haldnar á næstunni og að Framsóknarflokkurinn sé farinn að búa sig undir kosningar.
Þrátt fyrir upphlaup í ríkisstjórninni eru ekki sérstakar líkur á að kosningar verði fyrr en í apríl 2013, en þá lýkur kjörtímabilinu.
Ríkistjórnarflokkarnir vita að þeir myndu tapa stórt ef nú yrði boðað til kosninga. Von þeira felst í því að efnahagslífið verði farið að taka vel við sér á næsta ári – það er ekki um það deilt að staða Íslands er betri en á horfðist.
Órólega deildin í VG er að hluta til horfin á braut, en hinn helmingur hennar hefur sæst við ríkisstjórnina.
Á móti kemur að Samfylkingin hefur eignast sína órólegu deild – sem samanstendur nú af Kristjáni Möller og Sigmundi Erni Rúnarssyni.
Ef þeir færu út í það að sprengja stjórnina myndi tvennt blasa við, brotthvarf af þingi fyrir þá og samþingmenn þeirra og slit ESB viðræðnanna.
Því eins og ég sagði í gær eru það í raun Vinstri græn sem hafa fært stóru fórnina fyrir þessa ríkisstjórn – þegar þeir féllust á að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Að auki hefur Steingrímur orðið feikilegur raunsæismaður í ríkisfjármálum sem er hrósað í hástert af Alþjóða gjaldeyrissjóðnum – sem fer ekkert sérlega vel í kjósendur flokks hans. Það vegur ekkert sérlega þungt á móti þessu þótt stóriðjuarmurinn í Samfylkingunni hafi ekki fengið sitt fram.