Ég hef verið að furða mig á ótrúlega háum orkureikningum sem berast hér inn á heimilið – 110 fermetra íbúð og ekki neitt sukkað með orku.
Við létum athuga það um daginn hvort það væri eitthvað bogið við þetta, hvort við værum kannski að borga rafmagn eða hita fyrir nágrannana – en svo reyndist ekki vera.
Ég setti svohljóðandi texta inn á Facebook í gær:
„Orkureikningar sem berast hér inn á heimilið eru óskaplega háir – við finnum ekki aðrar skýringar á þessu en að orkan sé einfaldlega orðin svona dýr. Kannast einhver við þetta?“
Svörin létu ekki á sér standa.
Fjöldi manns hafði sömu sögu að segja, og margir höfðu einmitt látið athuga hvort einhver mistök væru á ferðinni í útreikningunum.
Aðrir kvörtuðu undan því – eins og konan mín – að reikningarnir væru flóknir og ógegnsæir, með óskiljanlegum talna- og stafarunum.
Allir voru sammála um að hækkanirnar væru svakalegar, erum við virkilega að borga svona mikið fyrir uppsafnað ruglið í Orkuveitunni – eða hvað er á seyði?