Ögmundur Jónasson var búinn að tjá sig með þeim hætti um kaup Huangs Nubo á Grímsstöðum á Fjöllun að óhugsandi var að hann myndi taka aðra ákvörðun en hann hefur gert.
Semsagt að leyfa Huang ekki að kaupa.
Þetta er deilumál sem að nokkru leyti gengur þvert á flokkslínur – innan Sjálfstæðisflokks er fólk sem er eindregið á móti kaupunum.
Ögmundur ber því við í ákvörðun sinni að landið sé svo stórt. En hjá því verður ekki litið að mest af því er eyðimörk þar sem erfitt er að stunda landbúnað. Nubo ætlaði að gefa eftir vatnsréttindi, svo það er spurning hvað sé að óttast.
Stundum er talað um að Kínverjar séu mjög forsjálir. Guðni Ágústsson taldi í grein að hugsanlegt markmið þeirra væri að koma á fót hrísgrjónarækt á „grænum grundum Eyjafjarðar“. Einn bloggari skrifaði að Kínverjar myndu ætla að koma sér upp „nýlendu“ á Grímsstöðum.
Hér var reyndar kínversk nýlenda um nokkurt skeið – meðan á byggingu Kárahnjúkavirkjunar stóð.
En þetta er samt ekki alltaf svona útpælt hjá Kínverjum. Þar má til dæmis benda á fjárfestingar þeirra í Svíþjóð sem hafa meira og minna farið í vaskinn.