Nicholas D. Kristof, sem er margverðlaunaður blaðamaður og baráttumaður fyrir mannréttindum, skrifar í New York Times og leggur út af umtalaðri bók eftir Stephen Pinker.
Bók Pinkers, sem er prófessor í sálfræði við Harvard, nefnist The Better Angels of our Nature.
Þar er því haldið fram að mannkynið sé í raun að lifa mjög góða tíma. Fólk sé að verða sanngjarnara og siðlegra, ofbeldi sé á undanhaldi, sem og kynþáttafordómar og kúgun kvenna.
Pinker heldur því fram að við lifum einhverja friðsömustu tíma í sögu mannkynsins – og telur að þetta sé einhver mikilvægasta þróun í sögunni.
Margir munu sjálfsagt andmæla þessu – en Pinker heldur því fram að stríð séu færri en áður og glæpatíðni sé líka lægri.