Í pólitík má spyrja hversu heppilegt er að gamlir foringjar þvælist fyrir hinum nýju.
Í Bretlandi var á sínum tíma mikið talað um hvað Margaret Thatcher gerði John Major lífið leitt. Hún kom einstöku sinnum fram með yfirlýsingar sem ollu honum erfiðleikum. Þetta fór mjög í taugarnar á Major og mörgum í Íhaldsflokknum þótti þessi framkoma Járnfrúarinnar óviðeigandi.
Ég man að Steingrímur Hermannsson vildi fara mjög varlega með að tjá sig eftir að Halldór Ásgrímsson var orðinn formaður Framsóknarflokksins. Hann gerði það samt stöku sinnum – og þá var Halldór ekki kátur.
Líklega væri óhugsandi í stórum flokkum eins og til dæmis Kristilegum demókrötum í Þýskalandi, Sósíaldemókrataflokknum í Svíþjóð eða Íhaldsflokknum í Bretlandi að gamlir foringjar stælu senunni hvað eftir annað á flokksþingum eða væru þar í aðalhlutverkum – það þætti einfaldlega ekki viðeigandi, ekki comme il faut.