Paul Collier sem var gestur í Silfri Egils í dag er prófessor við Oxford, sérfræðingur í málefnum Afríku, vinsæll fyrirlesari og hefur skrifað merkar bækur eins og The Plundered Planet og The Bottom Billion.
Eitt af því sem Collier hefur fjallað um eru auðlindir og hvernig þær eru nýttar. Þjóðir sem eru ríkar af auðlindum njóta þeirra nefnilega ekki alltaf – oft verða auðlindirnar þess valdandi að sérhagsmunaöfl ná tökum á þjóðfélögum og sleppa þeim ekki. Collier er fyrst og fremst að ræða um Afríku, en í þættinum nefndi hann Íslendinga líka í þessu sambandi – taldi að íslenska þjóðin væri sérstaklega gjafmild þar sem auðlindir hennar eru annars vegar.
Collier fjallar líka um rányrkju. Hann nefnir fiskveiðar við Afríku sem dæmi um slíkt. Afríkuríki eru of veikburða til að stjórna fiskimiðunum og því koma flotar frá Evrópu – og frá Íslandi – og stunda gengdarlausar fiskveiðar. Collier nefnir líka úthöfin og nauðsyn þess að koma böndum á fiskveiðar þar.
Það eru vissir hlutir sem þjóðríkin ráða ekki við, segir hann – loftslagsmálin, fjármagnsmarkaðirnir og stjórn úthafanna.