DV er með stóra úttekt á því hverjir séu að eignast Ísland nú eftir hrun.
Á forsíðu blasa við myndir af Guðbjörgu Matthíasdóttur, Hallbirni Karlssyni, Skúla Mogensen, Þorsteini Má Baldvinssyni – og Ólafi Ólafssyni.
Ólafur virðist þeim hæfileikum gæddur að fljóta alltaf ofan á.
Það er ljóst að það eru mikil tækifæri hér fyrir þá sem eiga einhverja peninga – eða til dæmis kvóta – eða eru innundir hjá bönkum eða lífeyrissjóðaveldinu.
En eins og var varað við á fyrstu misserunum eftir hrun eru líka miklir möguleikar á spillingu – það er ekki beinlínis verið að gera hlutina fyrir opnum tjöldum, þrátt fyrir að eitt sinn hafi menn haft heitstrengingar þar um.
Svo eru aðrir sem virðast ekki hafa gleymt neinu.
Þar má til dæmis nefna forsíðufrétt Fréttablaðsins, Ágúst Guðmundsson, annan af bræðrunum sem stýrðu Exista. Bræðurnir fengu að halda fyrirtæki sínu Bakkavör, þó með því fororði að reksturinn stæðist ákveðnar áætlanir sem kveðið var á um í nauðasamningum. Þetta hefur ekkki tekist og líklega missa bræðurnir fyrirtækið. En það breytir því ekki að Ágúst tók sér 112 milljónir í laun í fyrra.