Fólkið sem kaupir upp Ísland

Verðmætum Íslands endurúthlutað

Skúli Mogensen er sá fjárfestir sem hefur verið umsvifamestur í eignakapphlaupum eftir hrunið. Í helgarblaði DV er ljósi varpað á þá fjárfesta sem hafa verið duglegir við að sanka að sér eignum hér á landi eftir hrun.

Eitt af helstu einkennum þeirra fjárfesta sem hvað mest hafa látið til sín taka hér á landi eftir hrunið er að þeir annaðhvort auðguðust erlendis eða seldu eignir sínar á Íslandi fyrir hrunið. Þetta á til dæmis við um Skúla Mogensen, Árna Hauksson, Hallbjörn Karlsson, Kristin Aðalsteinsson og systkinin Guðmund Jónsson og Berglindi Jónsdóttur.

Skúli Mogensen er vafalítið sá fjárfestir sem hefur verið mest áberandi í íslensku fjármálalífi eftir efnahagshrunið sem fyrr segir. Hann hefur verið mjög umsvifamikill við kaup á fyrirtækjum og stofnun nýrra eftir að hann sneri aftur til Íslands frá Kanada í kjölfar hrunsins með fulla vasa fjár – „Tilbúinn með fjóra milljarða“, eins og sagði í viðtali Viðskiptablaðsins við Skúla í árslok 2009.

Síðan þá hefur Skúli meðal annars fjárfest í MP banka, Securitas, tölvuleikjafyrirtækinu Caoz, gagnaverinu Thor og undirbýr nú stofnun flugfélagsins WOW Air. Þá keypti hann verðmætar jarðir í Hvalfirði af Orkuveitu Reykjavíkur fyrr í haust. Skúli var sömuleiðis efstur á lista yfir greiðendur hæstu auðlegðarskatta á Íslandi í fyrra: Hann og kona hans, Margrét Ásgeirsdóttir, eiga samtals tæpa átta milljarða króna samkvæmt útreikningum út frá greiddum auðlegðarskatti.

Meðal annarra fjárfesta sem fjallað er um í helgarblaði DV eru Árni Hauksson, Hallbjörn Karlsson, Guðbjörg Matthíasdóttir, Kristinn Aðalsteinsson og Guðmundur Steinar Jónsson svo dæmi séu tekin.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.