Ég hafði aldrei áttað mig á að bókamessan í Frankfurt væri svo risastórt fyrirbæri.
Sýningarsvæðið nær nánast yfir heilt borgarhverfi. Það er ógerningur að fara um þetta allt. Það er sagt að meira en sjö þúsund útgefendur kynni bækur sínar.
Reyndar er sýningin að hluta til helguð e-bókum þetta árið. Á ræðumönnum við setningu bókamessunnar í dag var að heyra að þeir væru mjög uggandi vegna þessa útgáfuforms. Þeir óttast að það muni leiða til stórfellds þjófnaðar á hugverkum – líkt og hefur gerst í tónlistarheiminum. Hver af öðrum komu stjórnmálamenn upp með heitstrengingar um að höfundarrétt yrði að virða.
Íslensku ræðumennirnir voru á svolítið öðrum nótum. Guðrún Eva Mínervudóttir og Arnaldur Indriðason fluttu prýðilegar ræður og töluðu um mikilvægi sagnaskáldskapar, Guðrún Eva varaði við þjóðrembu, Arnaldur talaði um vináttu Þjóðverja í garð Íslendinga.
Ólafur Ragnar Grímsson nefndi íslenskar söguhetjur eins og Bjart, Jón Hreggviðsson og Erlend, en Guido Westerwelle, utanríkisráðherra Þýskalands, hélt ræðu þar sem hann talaði eins og Ísland væri komið langleiðina inn í Evrópusambandið. Ég veit ekki hvort einhver fjölmiðill hefur tekið ræðuna upp, Westerwelle virtist tala blaðlaust þegar þarna var komið, en innihald hennar myndi ábyggilega vekja umtal ef fréttist.
Íslenski sýningarskálinn opnaði svo undir kvöldið. Hann er stórfallegur, byggir á því að sýna á stórum tjöldum hreyfimyndir af fólki við lestur. Þetta er afar falleg hugmynd og hún er sérlega vel útfærð. Það má segja að athyglin sem Ísland er að fá vegna bókasýningarinnar sé framar öllum vonum.
Við sýnum frá bókamessunni í Kiljunni annað kvöld.
Það má segja að Arnaldur Indriðason dragi vagninn fyrir íslenskar bókmenntir í Þýskalandi. Bækur hans hafa notið fáheyrðra vinsælda þar.