Íslenskar bókmenntir blómstra þetta haustið. Gyrðir Elíasson tekur við bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs. Ísland verður í brennidepli á stærstu bókasýningu heims, í Frankfurt. Það er verið að þýða mikið af íslenskum bókmenntum á erlend tungumál – heildarútgáfa Íslendingasagnanna á þýsku í nýjum þýðingum er stórviðburður. Bækurnar eru stórglæsilegar, eins og er von og vísa Þjóðverja – hvergi eru gefnar út jafn fallegar bækur og í Þýskalandi.
Á næstu vikum og fram til jóla koma svo út ný verk eftir marga af helstu höfundum þjóðarinnar: Jón Kalman Stefánsson, Vigdísi Grímsdóttur, Ólaf Jóhann Ólafsson, Hallgrím Helgason, Steinunni Sigurðardóttur, Guðmund Andra Thorsson, Ólaf Gunnarsson, Hannes Pétursson – svo nokkrir séu nefndir.
Það er spennandi tími framundan.
Við í Kiljunni fylgjumst að sjálfsögðu með þessu. Við erum þegar með í vinnslu innslög sem fjalla um Jón Kalman og Vigdísi Grímsdóttur – og í lok mánaðarins verður sýnd sérstök mynd sem við höfum gert um Gyrði Elíasson.