Í Kiljunni í kvöld förum við vestur á Flateyri og skoðum skemmtilega gamla bókabúð sem þar er. Verslunarstjórinn Sunna Dís Másdóttir sýnir okkur bækur og gripi úr búðinni, en verslunarrekstur hófst þar snemma á síðustu öld.
Við skoðum nýja og glæsilega útgáfu á fágætu verki eftir Benedikt Gröndal. Þetta eru myndir hans af íslenskum fuglum og skýringartextar með. Myndirnar eru sérlega fallegar og koma nú út í vandaðri bók hjá Crymogeu í ritstjórn Kristins Hauks Skarphéðinssonar náttúrufræðings.
Björn Þorláksson, blaðamaður á Akureyri, segir frá uppáhaldsbókum sínum og við heyrum í frönsku ljóðskáldi, Anne Kawala, sem er gestur á Alþjóðlegri ljóðahátíð sem hefst í Reykjavík á morgun.
Kolbrún og Páll fjalla um nýja skáldsögu eftir Ármann Jakobsson sem nefnist Glæsir, en í spjalli okkar Braga kemur meðal annarra við sögu Hendrik Ottósson.
Tvær af hinum hugþekku fuglamyndum Benedikts Gröndal. Hann var náttúrufræðingur, teiknari, skáld, þýðandi, prósahöfundur og kennari og lék þess auki á hljóðfæri – einstakur maður.