Stewart Lansley skrifar athyglisverða grein í Guardian þar sem hann rekur nokkrar ástæður fyrir kreppunni sem ógnar Vesturlöndum.
Ójöfnuður er ein meginástæðan segir hann, hinn frjálsi markaður er ekki að dreifa fjármagninu á skilvirkan hátt. Hinir ríku verða ríkari og hagkerfið er sjúkt.
Kaupmáttur almennings hefur ekki hækkað, þannig stöndum við nú frammi fyrir neysluhagkerfi án neytenda. Í raun hefði kreppan getað komið fyrr, en bilið var brúað með óhóflegum lántökum. Nú er tími þeirra liðinn.
Þegar auðæfi safnast á færri hendur er hætt við efnahagsbólum. Efnahagsreikningar fjármálafyrirtækja blésu út og sumir urðu óskaplega ríkir á þessu, lánsfé flæddi út um kerfið – þessi bóla sprakk svo með skelfilegum afleiðingum.
Peningarnir sem flóðu um fjármálakerfið skekktu allt umhverfi viðskipta- og athafnalífsins. Fjármagnið var sett þar sem það skapaði ekki nein verðmæti, heldur notað til að braska með.
Hin mikla samþjöppun auðs veldur því að stjórnmálin ráða ekki við fjármálakerfið. Peningaöflin hafa betur í baráttunni um hærri skatta á fjármagn, fjármálaparadísir og hert eftirlit með fjármálaviðsskiptum.
Laun hafa lækkað og skuldirnar aukist þannig að hagkerfi Vesturlanda hjökta. Meðan sitja stórfyrirtæki á óheyrilegu magni peninga. Þegar þeir eru hreyfðir er líklegra að það tengist spákaupmennsku en raunverulegum fjárfestingum sem gagnast almenningi og hagkerfinu, segir Lansley.
Vald City í London og Wall Street í New York er óhaggað – og það er ekki von á alvöru bata fyrr en tekið verður á þessari miklu samþjöppun auðs og valda.