Kristján Eldjárn og Vigdís Finnbogadóttir tóku ekki afstöðu til pólitískra mála. Þau settu sig aldrei upp á móti ríkisstjórnum.
Þegar Ólafur Ragnar Grímsson tók við var þessi hefð í gildi. Ólafur færði smátt og smátt út mörkin.
En það var svo að hann mátti ekki tjá sig án þess að fá á sig skammir, einatt komu þær fram í leiðurum Morgunblaðsins. Á þeim árum var kalt stríð milli forsetans og forsætisráðherrans.
Ólafur Ragnar talaði um vonda vegi á Vestfjörðum – það var talið að hann hefði farið út fyrir verksvið sitt og hann fékk bágt fyrir.
Hann hefur aldeilis breytt hlutverki forsetans, kannski verður það aldrei samt aftur. Um það kann að verða tekist á í forsetakosningum.
En nú hljóma það eins og forneskjuviðhorf þegar Jóhanna Sigurðardóttir og fleiri ráðherrar segja að forsetinn þurfi alltaf að vera í algjörum samhljómi við ríkisstjórnina.
Sé dæminu stillt þannig upp er í raun alveg óþarfi að kjósa sérstakan forseta með þátttöku allrar þjóðarinnar – þá getur til dæmis forseti Alþingis alveg eins séð um að vera almennur tækifærisræðumaður og veislustjóri.