Það er fjölbreytt efni í Kiljunni í kvöld.
Við skoðum eyðibýli ásamt Nökkva Elíassyni og Aðalsteini Ásberg Sigurðssyni en þeir eru höfundar bókar þar sem má skoða blöndu af annarlegri fegurð og tortímingu í yfirgefnum bæjum umhverfis landið.
Bryndís Björgvinsdóttir verður gestur í þættinum. Hún fékk í gær Íslensku barnabókaverðlaunin fyrir bókina Flugan sem stöðvaði stríðið.
Við kynnumst skáldinu og þýðandanum Hallberg Hallmundssyni sem lést fyrr á þessu ári. Hann var lengi búsettur í Bandaríkjunum. Aðalverk hans hin síðari ár voru þýðingar á ljóðum yfir á íslensku, þar má nefna kvæði eftir Ted Hughes, Sylviu Plath, Anne Sexton, Emily Dickinson, William Carlos Williams, Pablo Neruda og Federico Garcia Lorca.
Við fáum að heyra hverjar eru uppáhaldsbækur Þóru Arnórsdóttur.
Bragi talar meðal annars um Pál Ísólfsson og Harald Björnsson, en Páll Baldvin og Kolbrún fjalla um þrjár bækur: Lýtalaus eftir Tobbu Marinós, nýja útgáfu á Svörtum fjöðrum eftir Davíð Stefánsson og ærslafulla sænska skáldsögu sem nefnist Gamlinginn sem skreið út um gluggann og hvarf en höfundur hennar nefnist Jonas Jonasson.
Ein af hinum mögnuðu ljósmyndum sem Nökkvi Elíasson hefur tekið af eyðibýlum landið um kring. Þær birtast í bók sem nefnist Hús eru aldrei ein.