Finninn Tapio Koivukari er Íslendingum að góðu kunnur. Hann talar reiprennandi íslensku, var kennari vestur á fjörðum. Hann er líka þekktur rithöfundur í heimalandi sínu, Sigurður Karlsson þýddi fyrir tveimur árum skáldsöguna Yfir hafið og í steininn eftir Tapio, fjarska skemmtilega bók.
Nú hefur Tapio sent frá sér nýja skáldsögu sem ætti að vekja áhuga hjá Íslendingum. Hún fjallar nefnilega um einn hryllilegasta atburð Íslandssögunnar, Spánverjavígin svokölluðu 1615. Þá var 31 baskneskur skipbrotsmaður veginn af vestfirskum bændum undir forystu Ara í Ögri.
Bókin nefnist Ariasman – saga um hvalfangara. Ariasman var nafnið sem Baskarnir gáfu Ara.
Þessi skáldsaga mun vera væntanleg á íslensku á næsta ári, í þýðingu Sigurðar Karlssonar.
Tapio Koivukari, finnski rithöfundurinn sem eitt sinn var smíðakennari á Ísafirði.