Ísrael er alltaf að breytast meir og meir í einangrað virki í Miðausturlöndum.
Ríkisstjórnin í Egyptalandi sem gerði friðarsamning við Ísrael er fallin – og það er óvíst hvað tekur við í samskiptum ríkjanna.
Tyrkir voru lengi helstu vinir Ísraels í þessum heimshluta. Þeir hafa misst þolinmæðina. Erdogan forsætisráðherra Tyrklands gerir ekki annað en að enduróma almenningsálitið í landinu. Erdogan hefur slitið hernaðarsambandi við Ísrael, rekið ísraelska diplómata frá Ankara, hann hefur rætt um að heimsækja Gaza og vegna árása Ísraelsmanna á skipalest sem ætlaði að sigla þangað hefur hann talað um „ríkishryðjuverk“. Þetta er nýr tónn hjá tyrkneskum ráðamönnum og mikið áhyggjuefni fyrir Ísrael, enda fara áhrif Tyrkja vaxandi.
Ekkert lát er á kúguninni á Palestínumönnum og ráninu á landi þeirra. Veikburða svar er að sækja um viðurkenningu fyrir sjálfstætt ríki Palestínumanna hjá Sameinuðu þjóðunum. Líklegt er að meirihuti sé fyrir því, en Bandaríkjamenn munu ætla að beita neitunarvaldi. Það mun líklega magna upp reiðina gegn Bandaríkjunum og Ísrael í þessum heimshluta.
Þetta myndband skýrir áætlega út ástandið í Palestínu, sagan er sögð á sannferðugan og öfgalausan hátt.