Kannski verð ég að éta ofan í mig stóru orðin. Ég taldi nánast óhugsandi að Hanna Birna færi í framboð gegn Bjarna Benediktssyni – og ég er svosem ekki viss um að hún geri það. En með þennan byr í seglin hlýtur hún að hugsa sig alvarlega um. Og þá er spurningin hvort rétti tíminn sé einmitt núna – eða hvort hún þoli að bíða.
Skoðanakönnun MMR hlýtur að ýta við henni. Sömuleiðis er hún eins og kjaftshögg fyrir Bjarna – þó máski ekki rothögg. Hanna Birna nýtur yfirburðafylgis bæði innan flokks og utan.
Þó er reyndar enn spurning hvernig línur liggja á sjálfum landsfundi Sjálfstæðisflokksins þar sem formaðurinn verður kosinn.
Á Facebook var sett fram áleitin spurning:
Hvort er Bjarni eða Hanna Birna betri kostur fyrir andstæðinga Sjálfstæðisflokksins? Hvort þeirra er auðveldara að eiga við í kosningum? Svari nú hver fyrir sig.